• Svanafolkid

Svanafólkið – skáldsaga

Um nýjar bækur

18. jan. 2020

Þegar ritað er um súrrelíska, absúrd eða yfirfærða frásagnarhefð er
almennt ekki vinsælt að kappkostað sé að tengja efnið við niðurnegld
umfjöllunarefni í samtíma okkar. Sérstaklega er höfundunum sjálfum
meinilla við það, og allra verst þegar rétt er greint.
Því sögðu finnst mér nauðsynlegt (augljóslega) að lesendur leitist við
að njóta og hrífast með stefnulaust og ómeðvitað, tilaðbyrjameð
allavega – svo má skoða jarðtengingar þegar nautnin er hjá.
Texti Kristínar er sem endranær unaðslegur og hér er vert að búa til
orðið „hlæviskubit“ – því það eru ekki margir höfundar sem hlægja mann
jafn títt um leið maður hefur jafn sterklega á tilfinningunni að það
sé alsekki rétt að hlæja.
Bókin er að stórum hluta nokkurskonar uppgjör eða greining á
tungumálinu okkar, sem ég held að hljóti að markast af því að þróun
tungumálsins er ennfremur nátengd aðalefninu – innflytjendamálum.
Sögupersónan Elísabet er bæði fulltrúi kerfisins og þátttakandi í
þróuninni – sem síðan er (og ekki) býsna óljóst hver er og verður.
Ýmisslegt vísar í dægurmál sem fara hátt:
„Að arðræna í eigin þágu og hagsmunaskyni úr brunni annarra sem hafa
minni eða enga möguleika á að virkja eigin brunn og hafa hagnað af,“
....
„Sársaukinn er orkuforði, sársaukinn er demantur manns. Ég neita að
aðrir en ég hagnist á mínum,“ ...... „karlmenn ágirnast sársaukaforða
kvenkynsins sem hefur hækkað í verði og um leið og verðmæti kvenlegs
forða eykst girnast þeir hann, en áður fyrr var brunnurinn verðlaus.“
(bls 125)
tískuorð sem fá sjálfstætt líf:
„Á þrettán dögum hafði sólin ekki haft dagskrárvald fyrir skýjaflækjum
en skein nú og hærra á lofti en síðast og myndi ekki setjast fyrr en
rúmlega klukkustund eftir kvöldverð.“ (bls 130)
Lykilorðin eru alltaf tungumál og sá raunveruleiki sem því fylgir:
„Þau sögðu að harkaleg eða harðneskjuleg - ..... – samfélög réðu yfir
yfirgripsmiklu safni blíðra og mjúkra hljóma:“ (bls 138)
Ríkisstofnanir sem fela ómanneskjulegheit og mannfyrirlitningu á
bakvið óskiljanleg/hljómfögur orð.
„Ég telst til fagmanna í lygi og sannleika,“ hóf ég ræðu mína, „og
starfa við að fela sannleikann með skrautfjöðrum og einnig með reyttum
fjöðrum, allt eftir því hvað hentar best feluleiknum, það er að segja:
við færum sannleikann í viðeigandi búning, annan ham. Ég starfa líka
við að safna ólíkum sannleika saman á einn stað, á einhvers konar
sannleikasafn. Í starfinu við að vernda sannleikann felst einnig
nokkurs konar skjala- og öryggisvarsla enda eru sumir sannleikar í
einkaeign. Í landinu gilda lög um eignarrétt. Þá passa ég að fólk
komist ekki nálægt sannleika x og komist fólk hættulega nærri
sannleika x er það í verkahring mínum að hrekja snuðrarana burt.“ (bls
108)
Stundum er tengingin hrópandi:
„Heitir það glæpur að leiðrétta falska ferilskrá ballerínu, sem
dansaði á strippbúllu í nágrenni þinghússins, komist maður að raun um
að hún lauk aldrei formlegu dansnámi einsog hún fullyrti við
yfirheyrslur og færa yfirvöldum þannig haldbæra og nothæfa ástæðu til
að reka manneskjuna úr landi?“ (bls 156)
Tvöfalda, eða margbrotna eðlið í þessu öllusaman má skoða sem ólíka
far-mennsku (svo hér) svanfuglastofnsins; sumar undirtegundirnar eru
að hluta til farfuglar, sumar al-far og aðrar ófar eða alsekki far.
Ég tel mig mega kalla bókina and-vísendi – bæði því ýmsustu
sundfitjafuglar koma við sögu og líka af því bókarkápan fær mig tilað
hugsa um Howard the Duck.
Allavega, sama hvað ríkisstofnanir reyna að hefta eðlilega þróun
(einsog rjúpur við staur) eru þessir farfuglar komnir tilað vera – og
við sem fyrir erum, erum líka ýmist komin til að fara eða vera – eftir
hendingum – því við erum ekki frí af fareðlinu heldur. Því er eðlilegt
að næsta mál á dagskrá sé hvernig hlutirnir munu æxlast – bókstaflega
– hvernig menn og fuglar muni æxlast. Því það er ljóst að einhver
samruni verður:
„Og ég trúi því ekki lengur að getnaður gerist aðeins við samfarir eða
tæknifrjóvganir tveggja og fleiri, önnur atriði en tæknileg atriði
æxlunar hljóta að skipta máli.“ (bls 163)
Að sama skapi er uppgjörið við tungumál skiljanlegt í ljósi þess hve
margir kokkar koma hér (og langt að) að súpunni.
Áhersla í síðari hluta bókarinnar á fóstureyðingu, ófrjósemi,
nauðungarfrjóvgun og önnur ofbeldisinngrip í náttúru eggberans vísar
samt í að áðurnefndar ríkisstofnanir munu virkilega reyna að standa í
vegi fyrir náttúrunni - eða skemma hana með sóðaskap og græðgi.
„Saknar Álfrún Perla eggsins eða saknar hún eggsins ekki? Getur hún
saknað einhvers sem hún mun aldrei þekkja?“ (bls 104)
Útgangspunkturinn er sá að eina von heimsins sé að dýrin og mennirnir
ná að sameinast á einhvern hátt – verða eitt. Möguleikinn er
afturámóti alveg geðveikur