Qaanaaq eftir Mo Malø

30. sep. 2019

Góð lesning, og fyrir okkur sem höfum beðið eftir krimma sem fjallar um morðóða ísbirni – alger himnasending.

Qaanaaq eftir Mo Malø

Qaanaaq er ansi spennandi saga. Sögusviðið er Grænland á okkar tímum, og nokkur morð, í nútíð og fortíð, virðast hafa verið framin af ísbirni – sem umfram kraft og ofbeldi – er ekki mjög ísbjarnarlegur, morðin eru augljóslega liður í pólitískri fléttu. Er þetta þá taminn ísbjörn? Eða einhverskonar draugur eða forynja sem lýtur stjórn galdramanns sem gengið hefur í lið með efnishyggju?

Á köflum hugsaði ég aftur til ágætis myndar J. Lee Thompson, The White Buffalo, sem fjallaði um goðsögulegt dýr sem veldur usla í megin- eða öllu heldur raunheimi. Svo skrifaði Peter Benchley áhugaverða bók um skepnu sem var hálfur maður og hálfur hvíthákarl, og gekk á land í smábæ og var til almennrar óþurftar.

Stíll bókarinnar er merkileg blanda af virðingu fyrir sögusviðinu og hressilegheitum, og mann grunar að það sé ekki eitthvað sem komið hafi til í íslenskri þýðingu, enda býsna vanur maður þar á ferð.

”Það er hárhnútnum mínum að kenna, hugsaði hún kímin. Hún var ákveðin og fylgin sér og þess vegna fékk hún ýmsa upp á móti sér. Eins þverstæðukennt og það hljómaði skapaði norræn fegurð hennar stundum tortryggni.” (bls 521)

Hvort heldur sem skáldsaga eða bara reyfari þá er verkið, og á vel við, algert monster hvað form varðar. 600 blaðsíður af texta og oft einsog engin ritstjórn hafi farið fram.
Samt sem áður heldur bókin lesandanum þráttfyrir klaufalega kafla og furðulegar lýsingar einsog sést hér að ofan. Kanski er bókin, einsog sögusviðið sjálft (svo hér) einhverskonar andóf gegn rökvísi og reglu.

Allavega, góð lesning, og fyrir okkur sem höfum beðið eftir krimma sem fjallar um morðóða ísbirni – alger himnasending.