Gamlabúð

  • Gamlabúð

Gamlabúð var reist 1864 við Papós í Lóni. Verslun hófst á Papósi um 1861 og árið 1863 löggilti Friðrik VII. konungur Papós sem verslunarstað. 1864 var Krambúðin reist og þjónaði sem verslunarhús meðan verslun var rekin á Papósi. Eftir að verslun lagðist þar af var húsið flutt til Hafnar og kallað Gamlabúð. Gamlabúð var flutt frá Papósi 1897 og var reist við Hafnarvík, í nágrenni Pakkhúss og Kaupmannshússins. Gamlabúð var aðalverslunarhúsið á Höfn frá upphafi byggðar til 1937. Sölubúð var í austurhluta neðri hæðar en kornvörur, kaffi, sykur of fleira var geymt í sekkjum í vesturhluta neðri hæðar og á lofti. Í kjallara var geymt salt og ýmislegt sem þoldi langa geymslu. 

Árið 1977 var Gamlabúð flutt á nýjan leik og var húsinu fundinn staður við Sílavík. Árið 1980 opnaði sýning Byggðasafnsins í húsinu og var Gamlabúð miðstöð starfsemi Byggðasafnsins þar til sumarið 2012, þá var hún aftur flutt á sinn gamla stað við höfnina. Árið 2013 var húsið opnað aftur sem gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs en árið 2023 tók Menningarmiðstöð Hornafjarðar við rekstri hússins og í dag er þar rekin upplýsingamiðstöð og sýningar safna miðstöðvarinnar má sjá í húsinu.

Opnunartími
09:15 - 17:00 virka daga

Staðsetning
Heppuvegur 1
780 Hornafirði

Hafa samband