Listasafn Svavars Guðnasonar

Listasafn Svavars Guðnasonar á Hornafirði opnaði við hátíðlega athöfn föstudaginn 24. júní 2011. Safnið er staðsett í Ráðhúsi Hornafjarðar og opnunarsýningin var á verkum Svavars Guðnasonar, en sveitarfélagið hafði þá nýverið fengið verk Svavars að gjöf frá ekkju hans, Ástu Eiríksdóttur.

  • Listasafn

Hlutverk Listasafns er að safna listaverkum með sérstakri áherslu á austur-skaftfellska list. Annað meginhlutverk Listasafns er að skrá og varðveita verk í eigu sveitarfélagsins og stofnana þess. Listaverk skulu að staðaldri vera til sýnis í sem flestum stofnunum sveitarfélagsins auk þess sem Listasafn efnir til sérstakra sýninga. Listasafn starfar eftir stofnskrá Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og gildandi lögum um starfsemi safna og safnalögum. Einnig fylgir það lögum um skil á menningarverðmætum og þjóðminjalögum.

Safneign er grunnforsenda þess að safn geti starfað. Kjarni safneignar Listasafnsins samanstendur af verkum Svavars Guðnasonar og fleiri hornfirskra málara og á safnið nú yfir 500 verk, sem bæði eru sýnd í sal Listasafnsins auk þess sem verk hafa verið lánuð til annarra stofnanna sveitarfélagsins og má sjá myndir t.d. í grunnskólum, áhaldahúsi, Skjólgarði, heilsugæslustöð og í ráðhúsinu. 

Listasafnið kappkostar að kynna starfsemi sína fyrir sem flestum og er tilbúið að þjóna gestum sínum sem best. Sýningar safnsins eiga að auka aðgengi og áhuga almennings að listum. Listasafnið stendur fyrir fjölbreyttum sýningum og eru þá sýnd verk úr safneign, eða sýningar frá öðrum söfnum, stofnunum eða einstaklingum.