Að borða Búdda – líf og dauði í tíbeskum bæ – eftir Barböru Demick

Bók vikunnar

2. sep. 2021


Okkar hugmynd um Tíbeta er að þau séu svona 90 prósent eða svo andleg,
búa enda hátt uppi og eru ekkert endilega að vasast mikið í hinu
veraldlega. Rétteinsog allir Norðmenn eiga spídbát og allir Danar
elska Tuborg grön þá eru öll í Tíbet munkar og eða heilög.
Ólíkt nefndum stereótýpum um Norðmenn og Dana þá er sannleikskorn í
því hve stóran sess búddisminn skipar í lífi Tíbeta – en seinustu ár
hafa vestrænir lesendur fengið býsna einhliða áróður um stöðu
þjóðarinnar. Bók Demicks bætir úr þessu finnst mér.
(Það er líka löngu tímabært að uppfæra stereótýpur sem koma úr Golden
Child, Pet Detective og Rambo 3.)

Titill bókarinnar rammar þetta ágætlega inn; bæði hvað varðar
spurninguna; geturðu lifað á trúnni? og jafnframt; hversu svöng þurfum
við að vera tilað leggja okkur til munns eitthvað sem er al heilagt? –
Það er hugsanlegt eðlilegra í Tíbet-Búddismanum því þar hverfur ekkert
þó það sé etið – en í bókinni er það Rauði her kommúnistanna sem étur
Búdda.
„Að því kom svo að Kínverjarnir áttuðu sig á því að búddaklaustrin
hefðu ekki einungis að geyma fjársjóði tíbeskrar þjóðmenningar, heldur
einnig möguleg matvæli. Trumbur voru gerðar úr dýraskinnum sem hægt
var að leggja sér til munns ef þau voru soðin nógu lengi – en þetta
vissu dátarnir mætavel, því þeir höfðu þegar etið sín eigin belti,
axlarólar fyrir riffla, leðurtöskur og tauma og múla fyrir hrossin.
Þeir átu jafnvel smástyttur sem höfðu verið steyptar úr byggmjöli og
smjöri.....“ (bls 56)
Kommúnistar víla ekki fyrir sér að leggja sér Búdda til munns en þeir
stóðu samt framifyrir annarri stórri spurningu á þessum tíma; hversu
gagnlegt var kerfi þeirra og hugsjón fyrst það var endalaus
hungursneið allsstaðar í landinu? Kommúnistarnir gátu í sjálfu sér
dósað í sjálfskipaðri hungursneyð en útflutningur/krossferðir með
þeirra hugmyndafræði neyddi sult uppá aðra líka:
„Það sem olli Rauða hernum mestum vanda var skortur á matvælum.
Kínversku dátarnir byrjuðu á því að tína uppskeruna af ökrum Tíbetanna
- ....., og stela kornbirgðum. Þeir hremmdu líka sauðkindur og jakuxa
og slátruðu þeim.“ (bls 55)

Það má sjá skýra mynd af náttúruhringrásinni í verki á bls 76 þarsem
lýst er hefðbundinni útför, eða fyrsta hluta ferlisins:
Farið er með lík uppá hæð spölkorn frá byggð, það hlutað í sundur og
skilið eftir fyrir hræfugla að éta. (Höfundur segir þetta skilvirkasta
og umhverfisvænasta greftrunargjörning sem til er.)
Þessi greftrunarsiður speglast svo í frásögn af nytjalýsingu á helsta
mjólkur og sláturdýri Tíbeta, jakuxanum; fyrirutan mjólkina, er
strokkað smjör í te og á lampa, sem og harðan ost sem endist vel til
langra fjallaferða. Garnir fara í pylsur, troðnar með blóðinu og öðru
hrati sem nýtist ekki í annað, magar sem sekkir, húðin gerir skó og
annan fatnað, beinin notuð sem kambar og skrautgripir. Sítt hárið ofið
í mottur og tjöld, og mykjan nýtist sem byggingarefni og brenni. (bls
86-87)

Önnur lýsing sem speglar bæði þá hér á undan og líka lýsingarnar á
sjálfsbjargarviðleitni Rauða hersins, er af dreng sem var svo naskur
að finna bein á víðavangi sem enn mátti sjóða einhvern kraft úr. Ekki
vissi fólk endilega hvaðan beinin komu, hvort þau voru af kind,
jakuxa, hundi eða manni en það gilti einu meðan hungrið var
alsráðandi. (bls 88)

Þessi algera nýtni kemur fram bæði hjá Tíbetum og Kínverjum, hjá þeim
fyrri í fullu samræmi og samkvæmt trúarhugmyndum sínum, en hjá þeim
síðari af algerri neyð og um leið nokkuð sem storkar kennisetningu sem
þeir kjósa að fara eftir. En aðal atriðið er neyðin – þú gerir
ýmisslegt í neyðinni sem þú myndir ekki gera annars.
Einnig má segja að verið sé að tefla því hvernig nýtni og hringrásar
hugmynd Tíbeta birtist í daglega lífinu gegn græðgi kínverska
ríkisins/flokksins að éta allt, og neysluhugmyndinni sem er boðuð í
dag.

Spurningin „geturðu borðað hugsjónir þínar?“ – kemur ávallt aftur og
aftur upp, einsog í þessari dæmisögu um mótmæli sem nemendur í Meruma
stóðu fyrir í skólanum sínum. Þau mættu í mötuneytið, tóku mat sinn og
fleygðu í ruslið – sem mætti ætla að sé höfuðsynd í slíkum
trúarbrögðum sem svo mjög leggja uppúr eðlilegri hringrás náttúrunnar.
Persónan sem vitnar þessa daga fyrir bókina lenti í vondri stöðu því
hún hafði ekki nært sig nógu vel síðustu dagana fyrir hungurstöðuna og
neyðist tilað fara útí sjoppu og kaupa sér snakk, sem segir doldla
sögu um togstreituna milli þarfa líkamans og hugsjóna okkar og
trúarbragða. (bls 286,287)

Einnig finnst mér koma svo vel fram hjá Demick, er hversu praktísk
kennisetningin er hjá Tíbet-Búddistum, einsog hér segir:
„Þar sem hann var heittrúaður búddisti bannaði hann veiðar á fuglum,
fiskum, múrmeldýrum og öðrum smádýrum; þar sem hvert og eitt dýr var
talið endurholdguð sál var hagfelldara að drepa stórt dýr á borð við
jakuxa eða sauð sem gæti mettað marga munna.“ (bls 38,37)

En matur og það að nærast er gegnumgangandi umfjöllunarefni bókina á
enda, og birtist á ýmsan hátt, samanber:
„Þetta var í fyrsta sinn sem stúlkurnar sáu vélknúin farartæki. Móðir
þeirra gantaðist með það seinna meir að þær hefðu reynt að gefa
vörubílunum gras að éta af því þær héldu að þeir væru hestar.“ (bls
39)

Og einnig hið líkamlega, sem er alltaf stutt undan:
Á blaðsíðum 215 og 216 er sagt frá rökræðuæfingum sem eru stór partur
af menntun í klaustrunum, sem hafa þróast í serimóníur sem eru ekki
síður líkamlegar en andlegar og hugmyndafræðilegar; ef þátttakandi er
ósammála rökum mótherja síns eða finnst hann tafsa eða vera of lengi
að svara er klappað hraustlega, en tilað marka ánægju er stappað og
traðkað af miklum móði.
Þetta er áhugavert útfrá sígildri sögu um uppruna kung fu meðal munka
sem blönduðu líkamsæfingum við íhugun sína tilað eiga betur með að
halda sér vakandi.

Niðurlagið er mjög áhugavert, bæði hvað varðar geópólitík almennt og
líka líf og merkingu smáþjóða. Aðalatriðið er bara að lifa af, ekki
endilega hvaða pólitísku hugmyndafræði þú færð að halda á lofti, eða
hver þeirra "vinnur"– hún skiptir ekki máli ef þjóð þín er horfin. Og
þrátt fyrir hatrömm mótmæli og aðgerðir í gegnum tíðina, þá vill fólk
bara frá að lifa.
„Tíbetar eru ekki einhver framandi og einangraður ættbálkur sem er að
reyna að varðveita forna þjóðmenningu fyrir ágengni nútímalegra
viðhorfa. Þeir vilja samfélagsinnviði, þeir vilja tækni, þeir vilja
æðri menntun. En þeir vilja líka fá að halda í tungumálið sitt,
menninguna og trúfrelsið. (bls 377)

Og ef við speglum þetta við okkar tilveru, þá má minnast þess að þótt
að þúsöldin (millennials) hafi ætlað að lifa á Latté og snjóflygsurnar
(snowflakes) á ristuðu avakadóbrauði, var slíkt náttúrlega aldrei
annað en ímynd fyrir auglýsingahlið lífsins. Sama hvað þau voru
framþróaðri en kynslóðirnar á undan sér, þurftu þau flestar "lífsins" nauðsynjar
einsog önnur. Spáum í þetta orð og hugmynd „ nauðsynjar“