AISHA – eftir Jesper Stein
Gaggað um bækur
19. okt. 2019
Afhverju allir þessar reyfarar, veltir maður stundum fyrir sér? Ef
þessi föstu form, genru, eru nánast endurtekningar – hver er afsökunin
fyrir því að lesa svona margar, og aftur og aftur?
Bókmenntir, sem greinast þá frá föstu genrunum eingöngu fyrir það að
vera einstakar og óhólfanlegar – ættu að vera eftirsóknarverðari ef
allur þessi lestur á á annað borð að leiða til einhvurrar dýbkunar eða
persónuþroska.
En kanski höfum við ekki eins brennandi áhuga á því að þroskast og við höldum.
Önnur skýring er að meðan bókmenntir bjóða uppá algerlega einstakar og
rammdjúpar tilvistarspurningar og gríðarlega mikilvægar umræður –
fjalla reyfarar nánast undantekningalaust um þá tilvistarspurningu sem
við öll búum við og er gjarna sú allra mikilvægasta: Spurninguna um
réttlæti, eða tilvist réttlætisins. Hver svo sem útfærslan af
ó/réttlætinu er, í hverri bók fyrir sig, kallast grunn spurningin á
við vangaveltur lesandans um réttlætið, hvert sem birtingarformið
annars er í huga viðkomandi.
Í Aishu eftir Jesper Stein, sem er alveg ágætlega skrifaður danskur
krimmi, er helst að sjá tvö lög af þessu réttlætisspursmáli. Hið fyrra
lýtur að fjölmenningarsamfélaginu og hversu raunverulegt það er
gagnvart stjórnvöldum. Ég biðst afsökunar á spójlerum en hjá þeim
verður ekki komist. Við sjáum tvær Danmerkur; eina fyrir allt fólkið í
landinu hver sem litur þess eða uppruni er; og aðra Danmörku sem vill
vera mikilvæg í augum stórþjóðanna, vill vera stórþjóð – þráir ekkert
heitara en að fá að vera með í ”klúbbnum” með Bandaríkjunum.
„Og þetta var svo sannarlega ríkisleyndarmál, eitt af þeim stóru – svo
stórt að barnslegt stolt hennar yfir því að vera með í teyminu, vera í
innsta hring valdsins, hafði skyggt á allt; hún, stóra og klunnalega
Henriette sem hvergi hafði fallið vel inn í hóp, var nógu mikilvæg til
að vita þetta. Þetta var eins og fokkmerki á alla barnæsku hennar,
útilokunina í skóla og lítinn stuðning foreldra hennar. (271)
Þessi minnimáttarkennd kallast á við stöðu þeirra Dana sem verða
sjálfkrafa óvinir þegar leikið er með samkvæmt spilareglum
Bandaríkjahers og tilaðeigandi leyniþjónustueininga. Múslimar í
Danmörku, fólk frá löndunum þarsem meirihlutinn er Múhameðstrúar, eða
bara fólk sem ekki er hvítt.
Höfundurinn er sérstaklega upptekinn af fangaflugi CIA og NSA og allra
þeirra, og telur að fólk sem á ættir að rekja til miðausturlanda,
miðAsíu eða norður Afríku, sem jafnvel fætt er í landinu – hefur ekki
sama rétt og hvítir Danar ef „þjóðaröryggishagsmunir” Bandaríkjanna
krefjast annars.
Fjölmenningarsamfélagið ristir heldur ekki dýpra en svo hjá
yfirbyggingunni, að Arabar geta búið alla ævi í landinu en þegar á
reynir eru þeir aldrei teknir að fullu leyti inn – það vitnar ein
undirsagan um agentinn Khalid sem er Dani í húð og hár og hefur alla
sérfræðiþekkingu og hæfileika sem þarf tilað vera í innsta hring í
dönsku leyniþjónustunni – en fær aldrei fullt traust og er afskrifaður
einsog argasta skúringakerling þegar svo hentar.
„“Það er ekkert augljósara skotmark fyrir Osama bin Laden og hans
hyski en Danmörk – fyrir utan Bandaríkin að sjálfsögðu – en árás á
ykkur væri stór sigur fyrir samtökin. Aðeins eitt væri stærra.”
Aftur gerði hann hlé á máli sínu og bar safaríkan bita af grísakjöti
hægt upp að munni sínum, setti hann upp í sig, tuggði í ró og næði og
horfði á hana.” (205)
Það er upphefð í því að vera mikilvægt skotmark, en spurning er hvort
um sé að ræða vissa fórnarlambslöngun sem sem verður æ ríkari í nútíma
samfélagi (sbr síðasta gagg um Brexitbók Fintan O´Tooles) – eða hvort
það einfaldlega staðfesti stærð og mikilvægi Danmerkur á
alþjóðasviðinu.
Þessir grísakjötskaflar draga líka athyglina að því hvort Danar eru
einhvernveginn í eðli sínu óvinveittir múhameðstrúarfólki, þótt þeir
geri ekkert beinlínis í þá áttina, - bara allt þetta svínakjötsát og
drykkja.
Rétt einsog óhlutstætt og órætt gildi bókmenntanna andspænis föstum
dagskrárliðum reyfarans, kallast líka hið óræða ó/réttlæti og
ógreinilegir hagsmunir í fangaflugi og afgreiðslu og ofbeldi
leyniþjónustustofnanna á „hryðjuverkamönnum” á við meira dagfarslegt
ofbeldi á götum Danmerkur. Og hér eru það Danar í minnihlutahóp, konur
í innflytjendasamfélaginu. Og þá komum við að sterkasta atriðinu í
bókinni.
Þessi (pólitíski) ómöguleiki sem alltof margar konur virðast upplifa
núorðið þegar þær vilja tilkynna og kæra kynferðislegt ofbeldi, sem
oftar en ekki reynist tilkominn vegna sameiginlegra hagsmuna
yfirbyggingarinnar og hins meinta geranda. Sumsé algert máttleysi
stúlku sem tilheyrir hverskonar anga af samfélagi Íslams gagnvart ríki
og stjórnvöldum þegar hún vill kæra nauðgara sinn, sem tengist
leyniþjónustuviðskiptum Danmerkur og Bandaríkjanna. Augljósir
hagsmunir fórnarlambs gagnvart hinu óskilgreinda „the greater good” og
þjóðaröryggissjónarmiðum.
Spurningin sem oftar er; með hverjum stendur ríkið?