• One_big_family_poster

Ein stór fjölskylda eftir Jóhann Sigmarsson

VHS VIKUNNAR

16. mar. 2020

Bókavörður hefur verið að taka afstöðu til VHS-kostar safnsins. Það
felur og í sér að skoða og í þessu tilviki, horfa á kostinn.
Nýlegast var það kvikmynd Jóhanns Sigmarssonar frá 1995, Ein stór fjölskylda.
Ég hafði ekki séð hana síðan í bíó um árið, þá fannst manni hún töff
sem einhverskonar F-jú-establishment – hún fékk vissulega einhvern aur
hjá Kvikmyndasjóði en að flestu öðru leyti var þetta eins independent
kvikmyndagerð og annars er hægt. Stundum gekk það full langt, þetta
var á háskeiði Dogmatískunnar og Jóhann og tæknifólkið virðast ma
reynt að nota raunbirtu útí eitt, einnig – og það var soldill skandall
á sínum tíma – virðist hafa verið regla að ekki mætti bæta inn hljóði
eftir á. Þetta er vissulega virðingarvert en líka erfitt að stara
tímunum saman á skjáinn og sjá ekkert hvað er að gerast og heyra
heldur ekki hvað fólkið er að segja.
Það sem maður skildi líklega ekki nógu vel á sínum tíma, rétt skriðinn
yfir tvítugu, er gegndarlaus sósjal-realisminn. Annars vegar pólitíski
hlutinn sem ég kem að síðar, en líka þessi manneskjulegi algeri
hversdagsleiki – sem fræðin kenna að ef einstaklingurinn upplifir líf
sitt sem leiðinlegt, tilbreytingar- og tilgangslaust þá sé það vegna
þess að hann er fastur í firringu. Ég segi ekki að myndin sé lamandi
leiðinleg, (sem var alltof oft fljótfærnisleg niðurstaða gagnrýndenda
á sínum tíma), heldur lýsir hún mjög áþreifanlega tilfinningu mannsins
um að lífið sé leiðinlegt.
Það er manneskjulegi hluti sósjal-realismans; það eru engin
kraftaverk, undur eða stórmerki – bara færsla og fókus frá einni
frumhvöt til annarrar. (Uppsetningin er að vísu úr annarri kvikmynd
frá sömu árum, en þessi áhersla á frumhvatirnar verður vart augljósari
en í senu þegar höfuðpersónan situr á dollunni og borðar pizzu).
Pólitíski hlutinn í mynd Jóhanns er síðan hvað merkilegri því
vissulega er verkamaðurinn Jónas Þór (Jón Sæmundur) þræll
vinnuveitanda síns, tengdaföður og fjölskyldu, efnahagslegra
aristókrata af verstu sort – og áhugavert með hvaða orðum
höfuðpersónan útskýrir hversu mikið pakk þau eru „Þar er alltaf vín
með matnum“ segir hann. Staða Jónasar sem verkamanns er líka sérstök,
hann hefur gift sig inn í fjölskyldu fjármagnseigandans – en hefur það
breytt stöðu hans sem verkamanns á einhvern hátt?
Hvað hann svo gerir við frelsi sitt eftir hafa að risið upp gegn
þrældómnum, hjónabandinu og yfirbyggingunni; það er ekki síst
áhugavert ef myndin er skoðuð sem sósjal-realísk stúdía: Hann fer á
látlaust fyllerí og gerir 4 konur óléttar. Sum myndu segja, hann
höndlar á engan hátt frelsið og sjálfstæðið. Önnur myndu segja það
persónubundið hvað fólki finnst mikilvægt í lífinu.
Að lokum neyðist hann tilað skríða aftur til kvalara sinna og ætlar að
láta þrældóminn um að svara lífspurningunni. Það gengur sem betur fer
ekki eftir og endanleg niðurstaða (afsakið spójlera), er að gerast
einstæður faðir – sem annaðhvort mætti skilja sem nokkurskonar blautan
draum um sjálfstætt fríríki patríarkísins – eða sem fellur betur að
SR-greiningunni – foreldrahlutverkið, ábyrgðin verður hinn nýi og
endanlegi kvalari og drottinn – því ekki má þetta enda á neinn hátt
sem skilja má sem á minnstamáta jákvæðan. Maðurinn leitar í öryggið og
vissuna í þrældóm og kúgun.
Áður er nefnt nokkurskonar F-jú-establishment viðhorf í myndinni og
kanski frekar í því hvernig hún var gerð. Eitt það mikilvægasta er
skipun áhugaleikara í flest hlutverk. Verkalýðsfélag leikara á Íslandi
hefur löngum ekki verið síður fast fyrir en Teamsterar í
Bandaríkjunum, og allt gott með það – en stundum snúið fyrir
kvikmyndagerðamenn sem eru ekki með endalausa styrki til
framleiðslunnar.
Áhugaleikhópar á Íslandi hafa alla tíð búið yfir gríðarlegu
hæfileikafólk sem hefur verið sorglega vannýtt í kvikmyndagerð, en
þegar hefur fundist flötur á að nýta þá hefur útkoman oft verið
stórfengleg, sbr fyrstu 2 lífsmyndir Þráins Bertelssonar.
Jóhann notaðist þó ekki beinlínis við við starfandi áhugaleikhópa,
heldur var valið úr „101 týpum“ og „barflugum“ ef kalla má. Ráðningar
fóru fram á Kaffibarnum og Hlölla í Austurstræti.
Reynslu- eða þjálfunarleysi gat samt aldrei komið að sök því öll voru
á einn eða annan hátt að leika sjálf sig, engin þurfti að túlka neitt
meira en þau lifðu og hrærðust í sjálf á hverjum degi.
Það er ekkert mý af sósjal-realískum kvikmyndum í íslenskri
menningarsögu, manni dettur helst í hug Þorgeir Þorgeirson og Ásdís
Thoroddsen – mynd Jóhanns er því sjaldgæf perla ef þú vilt hafa ofan
fyrir þér á þann máta.
Þetta er líka heillandi dókúment um gamla Ísland, stafrænulaust og rétt
áðuren hin endanlega einkavæðingar- og Kauphallarhrina reið yfir.
Lifið heil