• Hreyfing-raud-og-graen

Hreyfing rauð og græn – Saga VG 1999-2019 – Pétur Hrafn Árnason ritaði

Bókagagg

18. jan. 2020


Það er alltaf sorglegt þegar lífið birtist okkur í klisjum og sönnunum
á eðlishyggju og sleggjudómum. Við viljum vera spakari en svo að ana
að hlutunum og segja; karlar eru alltaf svona; konur eru alltaf
hinsegin; engin hugmyndafræði eða pólitík er ný og fersk og
mannbætandi – bara ólík egó að reyna að múra utanum sig klíkum.
En er það heildarniðurstaðan af sögu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs?
Vissulega byrjaði þetta með sleggjudómunum um að þetta væru bara
venjuleg vinstri splitt, undir forustu karls sem fékk ekki
formannssæti – vildi ekki láta áhrifastöðu af hendi til konu?
Þau eyðilögðu vinstri sameininguna í landinu! (Prófið að kyrja þetta
einsog They took our jobs möntruna í South Park).
En þótt ENDIR hreyfingarinnar, einsog mál standa í dag, gefi til kynna
að hinn stóri tilgangur hennar fái aldrei merkari einkunn í sögubókum
– þá er ekki þarmeðsagt að það hafi aldrei verið háleitari glæta í
þessu verkefni öllu.
Þá komum við að því sem er eiginlega merkilegast við þessa Sögu Vg
1999-2019 – hún er skrifuð að beiðni hreyfingarinnar sjálfrar sem er
vissulega sérstakt af því að efnið er í verstafalli alger falleinkunn
fyrir verkefnið og í bestafalli má lesa bókina sem eftirmæli eða
líkræðu – þarsem þær hugsjónir sem farið var á stað með í kringum
aldamót eru sannlega alsteindauðar í dag.
Rannsóknafjölmiðillinn Stundin hefur birt kafla uppúr bókinni einsog
skúbb eða afhjúpanir, og þá lagt áherslu á hina meintu gjá milli
leiðtoga(ræðisins) og hins almenna hreyfingarfélaga (á gólfinu) – en
þá er ekkert endilega verið að flíka því að þessi afhjúpun er í boði
leiðtogan(s) (na) sem hvað verst koma út.
Stærsta opinberunin finnst mér samt hve kerfisbundið úrvals fólk, sem
meintar hugsjónir flokksins drógu að sér, var hrakið burt. Á sama tíma
gæti einhver annar lesið þetta sem staðfestingu á því fullkomna kaosi
sem verður þegar eiginvirðið er slíkt að allir einstaklingar í
heiminum eru súperstjörnur og mikilvægastir samkvæmt því, og samvinna
verður einungis möguleg í mestalagi milli einstaklingsins og hans
sjálfs.
Það sem flest geta verið sammála um að hafi verið sérstaða Vg í
upphafi voru áherslurnar á umhverfismálin og (kven)jafnréttið.
Hið auðvelda samlíf kratanna með stóriðju og einkavæðingu var
skuggalegt að vitna og hreyfingin því augljóslega bráðnauðsynleg á
þeim tíma. En þau sem unnu hvað ötulast gegn stóriðju og sóðaskap voru
flæmd úr flokknum í stólaleikjum og þegar reyndi á að taka afstöðu til
fjölkynja eða eikynja þróunar (nútíma jafnréttis) þá er útkoman
einhvernveginn svona: (tilvitnanir af síðum 264 og 265)
Upphafleg tillaga:
„Við val í trúnaðarstörf innan og á vegum flokksins og í starfi hans í
hvívetna skal gætt jöfnuðar milli kynja.“
Þá er gerð breytingartillaga svo þessi grein megi betur endurspegla
fjölbreytileikann í samfélaginu:
„Við val........ hreyfingar og í starfi hennar skal þess gætt að ekki
halli á konur og að hreyfingin endurspegli fjölbreytileika
samfélagsins.“
Greinin er svo bætt um betur:
„Við val ...... skal gætt jöfnuðar milli kynja að ekki halli á konur
og aðra félagslega undirokaða hópa.“
Endanlega niðurstaðan er samt þessi (ominous stef og maður minnist
Phantom Menace, Enter the Burocrats, the true rulers of the Republic):
„Við val...... skal þess gætt að ekki halli á konur.“
Nú er einsog áður, spurning um ólíka lesendur; einhverjum finnst
staðfestan fólgin í því að vera trú upprunalegum gildum kvennalistans
og annarra jafnréttis power brokera – meðan öðrum finnst að það sem
skipti máli í baráttumálum gömlu kvenréttindahópanna lifi núna í
baráttu fjöl- og ókynja fólksins eða Regnbogafólksins einsog Skaupið
orðaði það svo ágætlega.
Þetta dæmi lýsir líka öðru sem ýmist þykir afar gott eða afar slæmt í
eðli hreyfingarinnar; einhverskonar mál- eða ræðuhyggju. Sitjandi
formaður (sem er náttúrulega soldið einkennilegt staða þegar um
líkræðu yfir pólitísku afli er að ræða) og jafnframt sú eina sem kemur
nokkurnveginn heil útúr þessari yfirferð (utan þeirra sem flæmdust
burt), segir á nokkrum stöðum að styrkur hreyfingarinnar hafi að mörgu
leyti falist í því hve mikið, margt og lengi var rætt um alla hluti.
Aðskilnaður ríkis og kirkju, sem var eitt af stóru málunum sem
hreyfingin átti framyfir hina flokkana, fær þessa meðferð í
málhyggjunni á landsfundi 2005:
„Landsfundur VG telur að afnám stjórnarskrárákvæðis um samband ríkis
og kirkju hljóti að koma til skoðunar fyrr eða síðar og hvetur til að
því verði hraðað en þó þannig að um það verði sem mest sátt.“ (bls
126)
Svo má ekki gleyma hinni frægu ESB málamiðlun sem gerði Vg kleift að
ganga í samstarf með erkióvini sínum, Krataflokknum:
„„Standi til þess ríkur pólitískur vilji til (svo hér) að ganga til
viðræðna um aðild að Evrópusambandinu verði á síðari hluta árs 2009 og
eftir atvikum á fyrstu mánuðum árs 2010 farið í könnunarviðræður eða
rannsóknarviðræður.“ Síðan verði niðurstaða þeirra viðræðna borin
undir þjóðina til að kanna vilja hennar til að sækja formlega um
aðild.“ (bls 152)
Forn fræði segja að yst til vinstri séu eintóm hryðjuverkamenni og
morðingjar, en næst yst öfl sem eru svo intellektúal og þurfi svo
mikið að ræða hlutina að ekkert kemst nokkru sinni í verk.
Ég er þó fyllilega á þeirri skoðun að pólitískt og samfélagslega
þenkjandi fólk eigi að lesa þessa bók, í gegnum þennan Untergang
síðasta vígis manneskjupólitíkur má fræðast mjög um samfélagið okkar
og heiminn.
Ef einhverjum finnst óboðlegar og ómálefnanlegar vísanir í
afþreyingarmenningu í þessum pistli, skal það tekið fram að hér er
fylgt fordæmi Forsætisráðherrahetjunnar sem sjálf leyfir sér að greina
pólitík með vísun í Tinnabók.