Innræti eftir Arndísi Þórarinsdóttur
Bókagagg
Vel ort, hnyttin, skemmtilega samansett.
Höfundurinn var á Rás 1 nýlega og sagði frá tilurð bókarinnar. Þá kom
meðal annars fram að
bókin er sjálfsskoðun, sumsé skoða sjálfið frekar en sjálfa sig því
þau geta verið býsna ólík. Einnig mátti merkja ákveðna micro/macro
nálgun þegar höfundurinn talaði um að skoða heiminn innan úr sér
(höfundinum, og bókstaflega), sem gjarna má setja í samband við hvert
hlutverk okkar er til lengri tíma litið, sem og eignarhald á og staða
gagnvart jörðinni og almennt.
....
Ég fletti veggfóðrinu af í stofunni
nota kíttisspaða til að skafa upp grænar og gylltar flyksur
sem ég veit ekki hver valdi
og hugsa um Akropólishæð
og að örlög allra bygginga
séu að verða einhvern daginn
rústir
(Samastaður, bls 25)
Hið illa hlutskipti símegrunar má sjá í nýju og betra ljósi ef skoðað
er á aldavís:
....
þegar einhver grefur mig upp
og raðar beinunum nostursamlega saman
undir glerhjúpi
að þá
muni aldursgreining segja
að þetta séu leifar
miklu yngri konu
(Innræti, 15)
Og þessi mynd sem gæti vísað til kynbundins sjálfsóöryggis sem orðið
er að fjötrandi þráhyggju, eða jafnvel bara verið ábending um
neysluhyggju.
....
Þegar ég finn að ég get ekki þurrkað brjóstahald í almannarými
án þess að blygðast mín
kaupi ég nýtt
.....
(Ég hlusta ekki á mélkisumjálm um sameiginleg þvottahús, 17)
Þetta gæti reyndar líka verið Seinfeld-vísun, sem myndi þá snúa
kynhugmyndinni eilítið á rönguna.
Í Útgangi (bls 11) og í Morgunsiðum sem ég segi engum frá koma óvæntar
og áhugaverðar lýsingar af sambandi konunnar við útganginn á sjálfri
sér. Hér er dæmi úr því síðarnefnda:
....
Áður en ég fer út vel ég hæla sem eru aðeins of háir
Þeir framkalla alveg sérstaka tegund af þreytu eftir daginn
þreytu í hnjánum
löngun til að falla á kné
fyrirvaralaust
...
(30)
Mitt eftirlæti er samt Siðareglur á bls 32, sem vill segja okkur
eitthvað um fordómaleysi, mörk í samskiptum og það að kunna að sjá
hlutina útfrá sjónarhóli annarra:
....
Ég átta mig oft ekki
fyrr en ég stend með leifarnar af heimiliskettinum í kjaftinum
og þau stara öll á mig
Blóðtaumarnir renna niður hökuna
Birtan á bls 39 á vel við í dag, fjallar um vonina og nauðsyn þess að
hlúa að henni frekar en að kæfa og kúga hana:
...
Hugsum
að myrkrið væri örlítið bærilegra
ögn
ef þau (jólaljósin) væru bara komin
En ekki strax
ekki strax
Það má ekki byrja of snemma
...
Birtan á systur á bls 20 í Skammdegi sem svo freistandi er að tengja
við ríkjandi ástand í kóvíd, páskavetrarhörkum, jarðskjálftum og
landsigi og risi – og endalausu fleira sem gengið hefur á seinustu
misseri. Þetta er einsog senan í Titanic þegar bátaverkfræðingurinn
útskýrir að í kili skipsins séu 10 hólf, skipið geti haldist á floti
jafnvel þótt 9 hólf fyllist af vatni en bara ekki ef öll 10 fyllast.
Þetta er það sem blasir við í dag; við þykjumst geta lifað af
faraldurinn, veturinn, jarðhræringar, meiraðsegja annað tímabil af
Trump í embætti – bara ekki taka frá okkur Em í fótbolta kvenna.
Seint á vetrardögum
stöndum við jafnfætis
við sólin
og horfumst í augu
Hún iðulega fyrri til
að líta undan
Ég stend ein
í rökkurkyrrðinni
Stormur í aðsigi
Það kemur að því að bókasafnið opnar á ný. Sjáumst þá. Bókavörður