Pínulítil kenopsía – Varúð, hér leynast krókódílar (eftir Jóhönnu Maríu Einarsdóttur)
Bók vikunnar
Þetta er ekki ný bók í beinum skilningi, en það ætti ekki að hindra
hana í að vera bók vikunnar.
Þrátt fyrir djúpa póstmóderníska tengingu, rætt frekar síðar, þá er
hér um að ræða næstu kynslóð bókmennta. Orðið kenopsía, sem er bæði í
titli bókarinnar og fyrsti lykillinn að leiknum – er orð sem fengið er
úr youtube orðabók. Orðasafni, sem að vísu gefur sig út fyrir að
skilgreina orð sem munu fara inn í almenna notkun – en engu að síður,
ófinnanleg enn sem komið er í „hefðbundnum“ orðabókum.
Orðræðan, textatilfinningin hefur augljóslega orðið fyrir áhrifum frá
„nýrri“ textaskilaboðaleiðum samanber blogg, (úrelt að vísu), tvítt,
insta og fleiri djöfulleg menningarskríbi.
Ég vil síður fara nánar útí þá sálma, það gæti verið fráhrindandi
fyrir aðra fordómafulla lesendur.
Kenopsía, fyrir mér, speglar annan minnisvarða hins nálæga en liðna
samtíma – með hljóð og atkvæðarímstengingu við orðið fuchsia – sem öll
vita að er hvorki meira en (og) minna en sjálft Wow Air. Kenopsía
lýsir þá líklega best hughrifum ykkar þegar þið minnist þeirrar
frægðarfarar.
Þótt það skýrist ekki endanlega fyren í blálok bókar, og kom kanski
(og margoft) fram við útgáfu eða þess tíma umfjöllun, þá verður fljótt
ofaná við lesturinn að meðtaka efnið sem skólaverkefni. Og það er ekki
sagt tilað draga úr mikilvægi eða verðleika, um er að ræða
nokkurskonar skólaverkefni í merkingunni – einsog Vefarinn mikli
(reyndar ekki fyrsta bók höfundar, bókmenntafræðingum til eilífrar
skapraunar). Höfundur hefur verið við þjálfun og heimildaöflun í mörg
ár og kemur að tímapunkti þarsem hún er „bók“staflega að springa úr
upplýsingum og þekkingu, og verður úr að skrifa bók þarsem öll
vitneskjan er sett niður til eigin úrvinnslu jafnvel frekar en til
beins gagns fyrir lesendur.
Þá er ekki sagt að bókin sé gagnslaus eða leiðinleg. Þennan
póstmóderníska þrætu, leikja og stælastíl er í íslenskum bókmenntum
samt oftar að sjá hjá „karlkyns“ höfundum, og í gamaldags
kynjaumhverfi og innan tilheyrandi viðmiða er hressandi að sjá konu
spreyta sig á stílnum. Þó er í raun alveg fráleitt að setja það svo
upp og algerlega ólíðandi – bæði gagnvart höfundi og lesendum almennt.
Öndvert, byltingarlegt eðli viðfangsefnisins aftur á móti kallar
augljóslega á það, og er beðist velvirðingar á því.
Bókin er stútfull af áhugaverðum pælingum, sem framsetningarmátinn
keppist um leið við að hrinda þér frá því að innbyrða, á blaðsíðum 75
og 76 eru athyglisverðar hugmyndir um það hversu tómt herbergi getur
orðið, og síður með tilvísun í „How much black can it get?“ úr Spinal
Tap, heldur frekar and- og eða antirýmis hugmyndir úr heimspeki og
myndlist.
Andrýmishugmyndir, og eins góður kafli um innihald og merkingu
tilgangsleysisins á blaðsíðu 37 – tengjast kenopsíunni og jafnvel ekki
síður umræða um sönnun á bls 38, þarsem rædd eru þýðing og gildi
stærðfræðisönnunar sem engin skilur nema höfundurinn.
Á sömu nótum er tengt við tvö svokölluð „bullhandrit“ – annað nýlegt
en líka sjálft Voynich handritið. Þegar póstmódernísk skrif einsog
Pínulítil kenopsía eru sett í slíkt samhengi – er ekki fráleitt að
velta því fyrir sér hvernig þessháttar ritsmíðar verði lesnar í
framtíðinni. Hvortheldur eftir allsherjar gjöreyðingarstríð þarsem öll
þekking glatast (fyrir utan þetta eina handrit), eða þegar fjarlægð
verður komin frá umhverfi þarsem slíkar hugmyndir þykja eðlilegar.
Verður jafn auðvelt að skilja slíkan texta einsog aðra sem beinlínis
reyna að vera aðgengilegir með því að falla að, væntingum, áhuga og
getu lesanda og ekki síst línulegum og orsakasamhengislegum tengingum
sem segja má að séu á einhvern hátt eðlislega tilheyrandi aðferðum
mannsins tilað skilja?
Er póstmóderníski textinn of innilokaður í því sem kalla má
sjálfsgleði höfundarins? Og talandi um sjálfsgleðina; á bls 42 er fín
lýsing á því sem höfundur kallar póstmódernískt hópkynlíf – en sama
hvernig textinn er lesinn þá er afskaplega erfitt að sjá þá senu
öðruvísi en það sem kallast „eins manns iðja“ í einhverju runusamhengi
sem þó verður aldrei meira en þeorétískur hópur.
Allur eftirmálinn og fræðileg niðurstaða styður það svo ennfremur, en
ætla má að allur texti sé það líka – á einn eða annan hátt.
Á bls 50 er rætt aðeins um menningarauð, sem uppeldisatriði og
eitthvað sem gengur milli kynslóða og býr til forgjöf eða yfirburði.
Að börn sem alin eru uppvið menningu standi betur að vígi fullorðin að
skilja og meta menningu – en þau sem ekki búa við slíka gæfu. Höfundur
útfærir sömu hugmyndir yfir á fyndniauð – sem skiljanlega er fyndið –
en þessi kafli minnir helst á þá staðreynd að póstmódernisminn og
aðrar skyldar kenningar einsog feminismi, eru mikið til í
þjóðfélagsstöðulegu tómarúmi. Óþarfa fólkið úr rússneskum
nítjándualdar bókmenntum er mætt tilað dufla einhver hobbí af því það
þarf ekkert að hafa fyrir lífinu.
Það er sannarlega frekar nastí að skella þessu á ungan
bókmenntafræðing sem bara er að reyna að vera skemmtileg, en þetta er
gert undir áhrifum frá ágætis lærimanni nokkrum sem ansar öllum
skoðunum, og allra með því að „viðkomandi þurfi að tékka eigin
forréttindastöðu.“
Sem er defaktó bara það sama og enda allar samræður á því að stinga
uppá að Karþagó verði lögð í eyði.
Í framhaldi af því er ástæða tilað minnast aðeins á metafrásagnarhátt,
sem er lykilatriði í póstmódernískum fræðum – og ekki vegna þess orðið
merkir eitthvað heldur frekar af því það er mikið notað á þeim
vettvangi. Stundum er ekki allt of hæpið að ætla að „metafrásagnir“
10da áratugarins spegli „metoofrásagnir“ seinustu ára – og þá ekki
bara til þess að vera fyndinn og hnyttinn, heldur frekar tilað
undirstrika hvað við metum mikilvægt og brýnt hverju sinni.
Nú verður að slá endahnútinn, einsog sagt er, því annars verður þessi
umfjöllun lengri en viðfangið sjálft. Mjög hressandi fyrstabók, verður
fróðlegt að fylgjast með Jóhönnu Maríu í framtíðinni.
Bókavörður mælir með, og munið að tékka eigin forrétindastöðu.