• Supermann_1620482077771

Superman Action Comics: Leviathan Rising – Brian Michael Bendis og Steve Epting

Bók vikunnar

10. mar. 2020

„That thing you´ve been fighting for your entire life... Change, real
change. ... The world is about to start over and you have a real place
in it..“
Teiknimyndasögur spegla heiminn stundum betur en myndlausu miðlarnir.
Bestu sögurnar úr þessum hluta fantasíugeirans seinustu 10 ár eða svo
hafa gjarna fjallað um byltingar, uppgjör af ýmsu tagi og
heimsslitafræðin í afhjúpunar- eða opinberunarskilningi þeirra.
Núna síðast, tvöfaldur skammtur af Avengers að stríða gegn þeim sem
vill bjarga heiminum. Það kann að koma fyrir sem kaldranalegt að
tengja helmingunarhugmynd Thanosar við vítisveiru þá sem geysar um
þessar mundir og sjá sem jákvæða ráðstöfun fyrir umhverfið.
Kaldranalegt, kanski en það er verið að ræða þetta á ýmsum vettvangi
og tímasetningin getur ekki verið alger tilviljun.
Þar á undan mátti telja Batman vs Superman: The Dawn of Justice frá
2016 sem ýmist mátti skoða sem mainstream úttekt á stöðu
útlendingahaturs í heiminum – já vissulega spes þegar útlendingahatrið
er sett í alþjóðlegt samhengi (alheimslegt jafnvel), enda gerir það
fátt nema garga það augljósa; hver er útlendingur hvar og hvenær? –
fyrir ykkur sem lesið lítið af teiknimyndasögum má nefna að Superman
er gjarna nefndur The Alien í nýlegum bókum, og það er ekki bara tilað
nýta hrollkalda hughrifatenginguna við monstur Ridley Scotts heldur
fyrst og fremst tilað leggja áherslu á að jafnvel eftir 80 ár eða svo
– er hann aldrei „héðan“
Dawn of Justice var líka hólmganga við gamlar hugmyndir um
góðmennskuna; það er einhvernveginn ekki pláss í heiminum í dag fyrir
hið algilda góða, sem á sama tíma er merkingar- og táknfræðilega
fremsti spámaður gyðinga.
Captain Marvel frá 2019 var líka að mínu mati að vinna áfram með
áðurnefnd 2 mótíf – við gegn útlendingunum, yfirburðahyggja
undirmálsfólks eða þeirra sem eiga enga heimtingu á að teljast
yfirburðafólk - og hið góða sem einhverskonar yfirburðavera – sumsé,
öðruvísi en einhver gyðinglegur ofur(karl)maður - en það þurfti
stundum að hafa fyrir því að sjá það í gegnum girl power partíið sem
myndin var líka og ekki síst.
Kemur þá að kvennabyltingunni, sem öðru nafni heitir barátta fyrir
jöfnum réttindum, lífsgæðum og svo framvegis og víkur þá sögunni að
Dark Knight Rises frá 2012 sem sameinaði (og ég biðst velvirðingar á
spójlerum, en þetta er samt 8 ára gömul mynd) baráttu hinna
stéttarlega undirokuðu og hefnd Taliu Al ghul á feðraveldinu – sem
einnig útleggst sem Batman. (Og maður þyrfti að vera galinn að þora
ekki bera saman við Sólveigu Jónsdóttur og Eflingu og baráttu þeirra
uppá síðkastið)
DKR var í vinnslu meðan Occupy Wall Street mótmælin stóðu sem hæst, og
voru margar vísbendingar á vinnslustiginu um að henni hefði verið
ætlað að fjalla mun meira um stéttastríðið en síðan varð raunin.
Peningaeðlur gripu í taumana á endanum og fengu því framgengt að hin
undirokuðu og byltingin þeirra túlkuðust sem eðlislega ill.
Það var samt nóg af vísbendingum eftir í endanlegri gerð tilað vita
hvað upphaflega stóð til að segja:
„There's a storm coming, Mr. Wayne. You and your friends better batten
down the hatches, because when it hits, you're all gonna wonder how
you ever thought you could live so large and leave so little for the
rest of us.”
Á sama hátt og helmingun Thanosar var látin ganga til baka í síðari
Avengers myndinni (afsaka spojler) – og Superman (The Alien) og Batman
ná saman í Dawn of Justice og verða samherjar.
Komum við þá að Superman Action Comics: Leviathan Rising – sem tekur
alla þessa þræði sem einhverju máli skipta í dag; pestar;
umhverfisvernd, stéttabrölt, innviðafyrirkomulag í heiminum (stofnanir
sem við erum löngu hætt að spá í hvað gera; SÞ; Nató, WHO og setjum
aldrei spurningamerki við), og alheimslöggæslu og patríarkíska
fullnustuaðilja hennar – The Alien, Batman, Flash og Green Lantern sem
renna saman í eitt og við getum ekki lengur gengið útfrá að séu
óvéfengjanlega góð og rétt.
Í Leviathan Rising sem er bók 2 í ritröð er allt njósna-, öryggis- og
hernaðarsamfélagið sett á hliðina af Taliu Al ghul sem fer fyrir
Leviathan, og er það tilað undirbúa boðaða byltingu sem bæði mun
opinbera hið rétta, afhjúpa blekkingar og gera heiminn betri.
Það er síðan alveg jafn óljóst hvort það sé í raun Talía Al ghul sem
stendur að baki þessu og hvaða breytingar er verið að boða.
Levíathan er þekktust úr biblíunni og Tanakh, bók gyðinga – en er
endurunnin mýta úr mun eldri sögum. Monstrið táknar einhverja
óendanlega stóra illsku og skelfilegheit sem bíða þess að koma upp á
yfirborðið, eða munu óhjákvæmilegt alltaf rísa upp á endanum.
Levíathan er líka tákn fyrir Babylon, eða þróunarstigið þegar græðgi
og spilling mannanna hefur gert heiminn óbyggilegan og byrja þarf upp
á nýtt.
Þetta er líka táknmynd fyrir hræðslu mannsins við ókomna, mögulega,
breytingar – í einu orði sagt; byltingu.
Gyðingar djöfulkenna Levíathan að öllu leyti en þegar guði er þakkað
fyrir að hafa skapað allt er jafnvel tekið fram að það eigi líka við
Levíathan.
Leviathan Rising vinnur með þennan ótta við breytingarnar, lofar
byltingu en gefur ekkert upp um hvað hún mun standa fyrir. Ef þú þú
vilt síður taka þetta alvarlega má líka heimfæra þetta á strategískan
popúlisma nútímans, og sjá þetta í Qanon þvælunni sem einhver borgar
fúlgu fyrir að halda að grandalausum netlesendum.
Þegar við drögum í efa heilindi og góðmennsku Súpermanns, getum við í
raun efast um allt. Er kanski engin umhverfisvá? Er kvennabyltingin
(ásókn í jöfn gæði og öryggi) eðlislega röng og við endum með verri
heim en ef patríarkíð hefði fengið að standa óhreyft?
Eru samningaborðið og opin landamæri af hinu verra – eigum við að
segja upp öllum bandalögum og eða breyta þeim í hernaðar- og
njósnastofnanir?
Þessi óleyfilegi efi kemur fram aftur og aftur, hér er það sett upp í
hugmyndinni um að Kryptónít skaði engan nema hinn Framandi:
„Supposedly it doesn´t hurt us normal, human earth people. I´m sure
it´s actually giving us cancer but that´s tomorrow´s problem.“
En gæti þess vegna snúist um 5g.
Svo að lokum þessi gullmoli úr heimspekinni, sem kennir að
misskilningur sé undirstaða alls skilnings og allrar þekkingar:
„I´m sorry. I´m not doing interviews right now. I´m in the middle of a
misunderstanding. Growing pains.“
Er útgangspunkturinn kanski að það er ekki útkoman úr byltingunni sem
skiptir máli heldur frekar skilningsleysi okkar og óvissa um það hvað
hún stendur fyrir?