Endurskoðun, uppgjör og innrás abstraktsins á Svavarssafni
Endurskoðun, uppgjör og innrás abstraktsins á Svavarssafni
Laugardaginn 29. ágúst opnaði myndlistasýningin Endurskoðun, uppgjör og innrás abstraktsins í Svavarssafni. Á sýningunni eru nokkur verk frá árunum 1941-49 eftir listafólk sem bar með sér nýja strauma inn í íslenskt listalíf um miðja síðustu öld. Listaverkin eru eftir Svavar Guðnason, Þorvald Skúlason, Jón Engilberts, Nínu Tryggvadóttur og Louisu Matthíasdóttur.
Við stríðsbyrjun fluttu Þorvaldur Skúlason og Jón Engilberts heim frá Kaupmannahöfn og þær Nína Tryggvadóttir og Louisa Matthíasdóttir fluttu einnig heim um það leyti. Svavar Guðnason varð hins vegar innlygsa í Danmörku og kom ekki heim fyrr en í stríðslok.
Svavar er sá myndlistarmaður íslenskur sem hefur vakið hvað mesta athygli erlendis og var mikill brautryðjandi í íslenskri list á 20. öld. Þegar Svavar Guðnason flutti heim með fyrsta skipi eftir stríðslok 1945 flutti hann með sér talsvert af verkum sem hann sýndi í Listamannaskálanum í ágúst 1945. Eftir einangrun stríðsáranna gafst Íslendingum þar kostur á að sjá sjálfsprottna abstraktlist í fyrsta sinn. Sýning Svavars í Listamannaskálanum markaði tímamót, því með henni hófst samfelld saga íslenskrar abstraktlistar, sem átti eftir að fá mikið vægi í íslenskri myndlist næstu áratugina. Verk Svavars eru sýnd hér með verkum samtímamanna sem unnin eru á svipuðum tíma og átti Abstraktið eftir að hafa mikil áhrif á verk þeirra flestra næstu áratugina.
Öll verkin á sýningunni tilheyra stofnagjöf Ragnars Jónssonar í Smára til Alþýðusambands Íslands sem lagði grunninn að stofnun Listasafns ASÍ sumarið 1961.
Vegna aðstæðna í samfélaginu verður engin formleg opnun á sýningunni að þessu sinni en seinna í haust verður boðið til dagskrár þar sem Elísabet Gunnarsdóttir sýningarstjóri segir frá verkunum á sýningunni og Halla Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands ávarpar gesti.
Sýningin er samstarfsverkefni Listasafns ASÍ og Svavarssafns og kemur í stað sýningar á verkum Bjarka Bragasonar sem frestað var til næsta árs.
Sýningarstjóri: Elísabet Gunnarsdóttir safnstjóri Listasafns ASÍ
Safnstjóri: Eyrún Helga Ævarsdóttir fostöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar