Kjöttægjur, blóð og eitthvað óáþreifanlegt

Viðtal við Stephan Stephensen ljósmyndara

29. feb. 2024

Viðtal þetta birtist í 1.tölublaði menningartímaritsins BrokksStephan

Í lítilli kjallaraholu í miðbæ Reykjavíkur er stúdíó uppfullt af hljómborðum, míkrofón-statífum og ljósmyndum. Þetta er ævintýraveröld President Bongo, eða öllu heldur Stephan Stephensen sem tók á móti safnverði til að ræða sýningu sem opnar bráðlega í Svavarssafni. Sýningin, Rangifer Tarandus (latneska heitið yfir hreindýr), fer með gesti inn í Lónsöræfin og hálendi Austurlands á slóðir hreindýra og hreindýraveiðimanna. Í um þrjú ár hefur Stephan verið að fylgja veiðimönnum eftir og ljósmynda þá, dýrin sem þeir veiða og landslagið allt um kring. Hann hefur einnig endurskapað hljóðheim hreindýrsins inn á plötunni Jerusalem sem hann tók upp með Sigtryggi Baldurssyni, ásláttarhljóðfæraleikara.

„Ég veit það að hann Kalli Sveins verður fyrir vonbrigðum því ég keypti af honum æðislegt hreindýrahorn fyrir kryppling, og ætlaði að búa til flautu. Síðan ætlaði ég að taka upp plötu með flautunni en þegar ég bar hugmyndina upp við Sigtrygg, þá kom hann með kongatrommur og parabólur. Svona húðhljóðfæri. Fyrri hlutinn á plötunni eru kongatrommur sem eru nuddaðar og í seinni hlutanum er spilað á parabólur, en pælingin var alltaf að líkja eftir hljóðinu í hreindýrum á tilraunakenndan hátt. Sem var svo ekki tilraunakenndara en það, að þegar við bárum saman hljóðin á upptökunum saman við hljóðin í raunverulegum hreindýrum þá voru þetta nánast sömu hljóðin. Og úr því verður platan Jerúsalem. Borg friðarins.“

Þessa daganna eins og svo oft áður ríkir ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs. Svarthvítar ljósmyndir Stephans af veiðunum eru margar blóðugar og minna um margt á gamlar myndir af stríðsátakasvæðum, en þó ríkir ákveðinn friður og heilagleiki yfir þeim. Í texta Ófeigs Sigurðssonar í sýningarskrá fáum við líka tilfinningu fyrir hálendinu sem helgum stað og veiðinni sem einhvers konar pílagrímsferð til Jórsala. En hvað er átt við með Jórsölum? Mountain

„Jórsalir, það er falleg þýðing,“ segir Stephan og hlær. „Ég hef fundið mína Jórsali. Það er Lónið.“ 

Stephan kynntist fyrst Lóninu fimmtán ára, þegar móðir hans keypti ókláraðan kofa í Stafafelli. Hann hefur síðan komið og varið þar miklum tíma, jafnt sumar sem vetur, til að slaka á, halda jól eða jafnvel taka upp plötu. Hann segir safnverði að fyrsta platan sem hann hafi unnið að í stúdíó-B, eins og hann glettnislega kallar bústaðinn, var Attention þegar hann var enn hluti af hljómsveitinni GusGus. Síðan bætir hann við að ein uppáhalds platan sem hann hafi unnið að í Stafafelli hafi verið Chateau, sem hann tók upp með Bjarna Frímann á um tíu dögum. 

„Það er vinstri umferð á þessari plötu, en engu að síður mjög fallegar melódíur sem höfða til allra. Hún er mögnuð fyrir þá sem eru klassískt þenkjandi. Algjört gúmmelaði, og allt tekið upp í Lóninu með selló, víólu og einum míkrófón.“ Þegar Stephan segir frá hljómar það eins og að ekkert sé auðveldara í heiminum en að taka upp plötu. Þó safnverði þyki freistandi að ræða meira langan tónlistarferil Stephans sem spannar áratugi með hljómsveitinni GusGus og ótal plötur með ýmsu öðru tónlistarfólki, þá beinir hann samræðunum aftur í átt að ljósmyndunum. Og af hverju ljósmyndir af hreindýrum? 

„Hreindýrin hafa alltaf verið mér mikið hugðarefni. Maður er hálf-alinn upp í Lóninu, þannig að ég hef verið í kringum hreindýrin í um 35 ár, en ég byrjaði að mynda þessa seríu og leggja drög að því að gera plötu byggða á hreindýra-konseptinu fyrir þremur árum. Það sumar fór ég í fyrstu veiðiferðina. Ég fór með Gunna Þorsteins í fjórar, fimm ferðir, og svo tvær á Egilsstöðum. Maður er alltaf að reyna að ná í rassgatið á þessum hreindýraveiðimönnum yfir sumartímann en grípur oft í tómt. Þeir eru alltaf upp á fjöllum! Eiður Gísli á Djúpavogi var til dæmis aldrei heima, svo ég kynntist konunni hans betur en honum. En þau eru frábært fólk.“

Veiðimaðurinn og ljósmyndarinn eru eflaust ekki ólík fyrirbæri. Báðir aðilar eru að reyna að ná góðu skoti í einhverjum skilningi. Stephan nálgast viðfangsefnið eins og góður veiðimaður, hann fullnýtir dýrið með því að vinna úr þessu ljósmyndir, hljóðverk og vídjó. Það óvænta við myndirnar sem hafa verið valdar fyrir sýninguna er að fókusinn er meira á athöfnina eftir veiðina. Þegar dýrið er tekið í sundur. Hjarta, heili, kynfæri, strekkt húð og blóðugar hendur. Stephan staldrar við eina myndina þar sem við horfum inn í auga hreindýrsins.

„Þetta er erfiðasta mynd sem ég hef tekið. Mér fannst ég vera hálfviti meðan ég var að taka mynd af síðasta andardrætti dýrsins. Það er miklu auðveldara að taka mynd eftir á.“

Reindeer-face

Það er ómögulegt annað en að fá samúð með hreindýrinu sem starir beint á móti kamerunni og finnast nánast brotið á einkalífi þess, með svona nærgöngulli myndatöku. Stephan heldur áfram að segja frá ferlinu, hvernig hann síðastliðin þrjú ár hefur verið að nota hvert tækifæri til að keyra austur og taka myndir. Áður en hann fór að fást við tónlist var Stephan í námi við ljósmyndaskólann Icart í París, þar sem ríkuleg áhersla er á heimildar-ljósmyndun og það hefur einkennt þær seríur sem hann hefur ljósmyndað síðan þá.

 „Enga eins viðamikla og þessa þó,“ játar hann. „Á sýningunni eru 22 myndir, af 180 mögulegum, en hinar munu koma út í bók hjá þýskum útgefanda. En þessi sýning á ekki að fanga framvinduna þegar þér er sögð einhver saga, heldur ástandið, vera líkari því að falla í trans ... þetta small saman þegar þessar myndir af höndunum komu, þar eru kjöttægjur og blóð, og eitthvað óáþreifanlegt sem þú sérð ekki en finnur fyrir.“ 

Safnvörður virðir fyrir sér myndirnar aftur. Þær eru kjöt og blóð, hold sem er tekið í sundur í þögulli og jafnvel heilagri athöfn. Þeir byrja að ræða nýleg kaup sem Stephan gerði með vinum sínum á seglskútu og ævintýrin sem þau munu hafa í för með sér á Grænlandi. President Bongo hefur nú grillað, grafið og reykt kjötið, flautað á hornin og barið á húðirnar, með öðrum orðum: fullnýtt dýrið, og heldur nú brátt á aðrar slóðir í leit að nýjum