Listamaður upp á Hrossó
Listamaðurinn Almar Atlason dvelur mánaðarlangt á Hornafirði. Þessa helgi, er hann að koma sér fyrir upp á toppi Hrossó í gjörning sem mætti kannski kalla Almar á hólnum.
Almar Atlason fremur gjörning til minnis um upphaf málaralistar á Hornafirði
Fyrir um hundrað og tíu árum birtist á Höfn sérkennilegur einfari í tjaldi. Maðurinn kom sér fyrir upp á grænum hól með góðu útsýni og tók að mála sveitina, græn tún, fjöll í fjarska og bjartan jökulinn. Uppátækið vakti vitaskuld nokkra undrun og uppskar athygli, og hafði þó nokkur áhrif, því að í kjölfarið tóku margir í sveitinni að mála. Menn pöntuðu liti frá Skotlandi, smíðuðu trönur og stilltu sér upp á hóla til að mála landslagið, og til varð lítið en kröftugt listasamfélag í Hornafirði, sem gat af sér málara á borð við Höskuld Björnsson, Jón Þorleifsson og Svavar Guðnason.
Einfarinn var enginn annar en Ásgrímur Jónsson, fyrsti listmálari Íslendinga, en árið áður hafði hann komið við í Öræfum og gist hjá bændum í Fagurhólsmýri, og málað þá bæði Svínafell og Öræfajökul svo nokkur dæmi séu nefnd. Á meðan dvöl hans á Höfn stóð yfir málaði hann bæina Stórulág og Stapa, og vitaskuld allan sjóndeildarhringinn eins og hann blasti við ofan frá hólunum sem hann stóð upp á að hverju sinni.
Nú í ár hyggst ungur listmálari endurtaka þennan gjörning og fanga landslag Hornafjarðar eins og það blasir við honum árið 2023. Margt er breytt, jökull hefur hopað, vegir hafa verið lagðir og litla fimm húsa þorpið sem stóð við sjóinn hefur nú þanið úr sér. Þessar breytingar verður athyglisvert að virða fyrir sér þegar mánaðardvöl Almar Atlasonar í tjaldi upp á Hrossabitahagahól (Hrossó) lýkur. Frá 14 júlí fram í miðjan ágúst mun listmálarinn dvelja þar í stóru, hvítu tjaldi, og standa úti með trönur hvernig sem viðrar að þeim dögum undanskildum þar sem hann fer í skoðunarferðir um Hornafjörð og nágrenni.
Safnvörður Svavarssafns náði tali af Almari til að ræða sýn hans á málverkið, hvernig landslagsmálverk vinnur Almar eiginlega?
Það skiptir mig ekki öllu máli hvað ég er að mála, aðallega að ná einhverri áferð og litum. Þegar maður eins og ég sem hefur alist upp digital(stafrænt), nálgast landslagsmálverkið, þá reyni ég að ná einhverju sem myndavélin nær ekki, finna það sem einungis mannsaugað sér. Ekki reyna að mála betur en manns eigin auga sér. Mannsaugað er alltaf á hreyfingu sem mér finnst vera nauðsynleg í málverki, mér finnst t.d. ekkert að því að mála allar hliðar á einu húsi í einni mynd, því ég er allt eins líklegur til að ganga hringinn í kringum húsið.
Í verkum þínum er veðurfar mjög áberandi ...
Ég hef ekki síður áhuga á að mála veður en fjöll. Af því sjónarhornið breytist, og það kemur eitthvað spennandi út ef maður málar í fimm tíma og málar allt sem kemur fyrir augun. [Innskot safnvarðar: Honum á ekki eftir að leiðast í Hornafirði þar sem veðurfar breytist á fimm mínútna fresti]
Málverkið er minning um athöfn, minnisvarði um gjörning. Það er einhver tilfinning, svo hreyfir maður sig og dansar, en listaverkið er kannski hreyfingin. Svo getur einhver sem horfir á málverkið elt hreyfinguna eða hugmyndina. Að horfa á málverkið, er mikilvægari en sjálft málverkið, sem er í raun bara ófullkominn minnisvarði um hreyfingu.
Nú ert þú nýkominn úr hálfs árs dvöl í Grikklandi [segir safnvörður án þess að nokkurrar öfundar gæti í málrómi hans], hafði það áhrif á hvernig þú málar?
Sko, það hefur allt áhrif, aðallega komst ég í svo góð efni í Grikklandi, sem maður hefur svo góð tök á að mála með. Olíumálning og grænmeti fylgir svolítið svipuðum lögmálum á Íslandi, segir málarinn án þess að fara nánar út í hvað hann á við með því.
Við Íslendingar erum sérstaklega lasnir af krómófóbíu. Það var vinkona mín Gréta Þorkelsdóttir sem menntaði mig í þeim fræðum. Krómófóbía er hræðslan við liti. Þetta getur birst sem form af nýlendurasisma og lýsir sér í því að við höldum okkur við gráan, svartan og beige, eins og veðrið við Bretlandseyjar. Þetta er norðurevrópskt viðhorf til lista, en við forðumst skæra og æpandi liti og álítum jafnvel skrælingjalist. Allt sem er hvítt, svart og beige verður þá fín, evrópsk og menntuð list, en litagleðin verður ómenntuð og eitthvað til að skammast sín fyrir. Það þarf náttúrulega ekki nema að horfa út um gluggan til að sjá að þetta stenst enga skoðun í íslensku landslagi.
Þetta er bragðtegund af smekklegheitum, sem útvíkkast þegar maður dvelur annarsstaðar, en smekkur minn er síbreytilegur, ég þarf ekki að sjá nema fimm eintök af Hús og Híbýli, og mæta á tvær opnanir í Reykjavík, til að smekkur minn breytist og allt verði aftur grátt og beige.
Þú sagðir mér að þú hefðir reynt að halda þig við að mála íslenska náttúru á Grikklandi, gekk það?
Já, íslenska náttúru og íslenskar furðuverur. Grikkir eiga sameiginlega með okkur ríka mytológíu og leikhúsmenningu. Íslenska málverkið sprettur að hluta upp úr leikmyndum, þegar fólk málaði íslenska náttúru til að hafa sem bakgrunn í leiksýningum, sem voru jafnvel mörgþúsund ára grískir harmleikir settir upp í Árneshrepp eða einhvers staðar með Heklu eða Herðubreið í bakgrunni.
Þetta er ein af rótum íslenska málverksins, og svo hefur alþýðumálaralist varðveist af þessu. Ég hugsa að þessi leiktjöld séu vendipunktur í íslenskri listasögu óháð öllu öðru.
Hefurðu einhverjar væntingar til ferðarinnar? Heldurðu að þetta verði dramatísk leiktjöld?
Það er svo stutt í ferðina að allar væntingar hafa skipt sér út fyrir áhyggjur. Það er alltaf mikil ánægja í mínu lífi að fá að vera einsetumaður, að fara að mála og vita hvað ég á að mála. Ég hef rómantíserað landslagsmálverk síðan ég var tíu ára.
Suðausturland er mjög spennandi svæði til að mála, og það er margt skrítið og skemmtilegt á svæðinu. Það er eitthvað gamalt í landinu, akkúrat þetta svæði á landinu er pínu rúnnað og fornt, elli landsins er kannski ekki há miðað við marga aðra staði í heiminum, en miðað við annað hér á Íslandi er hún töluverð.
Vegna þess að ég eyddi einu sumri í að mála í Kverkfjöllum og Herðubreiðum, ekki eins markvisst að vísu, þá er ég spenntur fyrir að kynnast suðurhluta jökulsins. Það verður einhver skynbrenglun í loftinu norðan jökuls sem fær málarann til að mála inn sérkennilega liti, ætli það sé ekki rykið frá Kárahnjúkavirkjun?
Það verður gaman að fylgjast með Almari að störfum í júlí og ágúst og sjá hvernig verkin þróast í hornfirskri veðráttu. Dvölin í tjaldinu er ekki síður listaverk enda hefur Almar getið sér góðs orðs ekki síður sem gjörningalistamaður en málari, og oftast er tíminn stór þáttur í verkum hans, hvort sem um málverk eða gjörning er að ræða. Eða eru málverkin, eins og hann sagði, kannski bara minnisvarði um gjörning?
Afraksturinn verður svo hægt að virða fyrir sér á sýningu í Svavarssafni í haust sem verður haldin í september og október, en einnig verða verk sýnd í Öræfum á Fagurhólsmýri. Allt verður þetta auglýst nánar síðar.