Mannvist á Mýrum

Myndasýning á Bókasafni í Nýheimum

4. des. 2023

Miðvikudaginn 29. nóvember sl. var verkefnið Mannvist á Mýrum formlega kynnt, með opnun myndasýningar frá búsetuminjum á Mýrum

 

Miðvikudaginn 29. nóvember sl. var verkefnið Mannvist á Mýrum formlega kynnt, með opnun myndasýningar frá búsetuminjum á Mýrum. Með sýningunni er kynnt, í máli og myndum, brot úr búsetusögu nokkurra býla á Mýrum sem farið hafa í eyði á liðnum öldum. Minjarnar sem varðveist hafa bera vitni um þessa sögu. Mýramenn bjuggu við óvenjulegar og oft krefjandi aðstæður langt fram eftir 20. öld. Framgangur jökla, jökulár sem flæmdust um og jökulhlaup spilltu nytjalöndum og urðu þess valdandi, að margar fjölskyldur hröktust á milli staða. Þessar erfiðu aðstæður urðu til þess að fjölmörg býli og hjáleigur fóru í eyði.

Sýningin samanstendur af sex veggspjöldum, hönnuðum af Tim Junge, þar sem saga átta eyðibýla eru kynnt, með ljósmyndum og texta, ásamt lýsingum um áhrif og afleiðingar sem framgangur jökla og jökuláa hafði á land og búsetuskilyrði Mýramanna. Höfundar efnis eru Sigríður Guðný Björgvinsdóttir starfsmaður rannsóknarsviðs og Sigurður Örn Hannesson á Höfn. Sigurður er Mýrarmaður og fyrrum starfsmaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og vel kunnur staðháttum á Mýrum. Meirihluti mynda er tekinn með flygildi en með slíkri myndatöku er hægt að ná fram heppilegu sjónarhorni til að fá skörpustu myndir af fyrirbærum sem jarðlægar minjar eru. Sýningin mun standa á bókasafni Menningarmiðstöðvar í Nýheimum fram til 5. janúar n.k. og fylgir opnunartíma bókasafnsins. Verkefnið hefur vakið athygli og jákvæð viðbrögð meðal heimamanna og margir gestir nú þegar borið hana augum.

Mannvist á Mýrum er annar hluti samstarfsverkefnis rannsóknarsviðs Menningarmiðstöðvar og Þórbergsseturs um skráningu á fornum býlum í Sveitarfélaginu Hornafirði. Megintilgangur þess er að hraða fornleifaskráningu fornra eyðibýla og annarra minja sem þeim tengjast, svo landfræði- og söguleg þekking þeirra glatist ekki. Samstarfið hófst í ársbyrjun 2020 og fyrsti hluti þess, Búsetuminjar í Suðursveit var kynntur með sama sniði sumarið 2021. Sú sýning stendur uppi í Þórbergssetri í Suðursveit. Báðar þessar sýningar hafa hlotið styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands hjá SASS – Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga.

Verkefnið í heild sinni er að finna á vefsíðu þess: www.busetuminjar.is