Menningarhátíð í Nýheimum
Menningarverðlaun, umhverfisviðurkenningar, styrkir nefnda og bæjarráðs.
Föstudaginn 13. mars var mikið um dýrðir hér í Sveitarfélaginu Hornafirði, en þá var haldin vegleg menningarhátíð Sveitarfélagsins í Nýheimum, þar voru afhentir styrkir og viðurkenningar sveitarfélagsins.
Alls voru 29 styrkir veittir, það voru styrkir menningarmálanefndar, bæjarráðs, fræðslu- og tómstundarnefndar, sem og styrkir úr atvinnu- og rannsóknarsjóði.
Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri setti hátíðina og kom fram í máli hennar mikilvægi þess að koma saman og fagna fjölbreyttri menningu, umhverfisvitund og frumkvöðlastarfi í sveitarfélaginu því menning er samofin samfélaginu og órjúfanlegur hluti þess.
Menningarverðlaun fyrir árið 2019
Menningarverðlaun hafa verið veitt frá árinu 1994 og í ár voru tíu einstaklingar tilnefndir til verðlaunanna. Fram kom í ræðu Eyrúnar Helgu Ævarsdóttir forstöðumanns Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar að hlutverk verðlauna er að veita hvatningu til handa listamönnum, fræðimönnum og áhrifavöldum fyrir verk sín. Það að vera tilnefndur er heiður og sönnun þess að verkin ykkar skipta okkur máli.
Menningarverðlaun Hornafjarðar hlaut að þessu sinni Kristján Heiðar Sigurðsson fyrir sitt ævistarf til menningarmála. Hann er mikill tónlistarmaður og hefur auðgað mennningu Hornafjarðar um árabil og sinnt af mikilli kostgæfni og elju hinum ýmsu menningarverkefnum í sveitarfélainu.
Heiðar byrjaði ungur að spila á hljóðfæri, stofnaði og hefur verið meðlimur í fjöldanum af hljómsveitum alla sína tíð og fóru þeir félagar í hljómsveitinni Vitringarnir t.d. í Músíktilraunir árið 1989. Hljómsveitir Heiðars hafa skemmt Hornfirðingum á dansleikjum og skemmtunum í sveitarfélaginu í gegnum tíðina.
Heiðar hefur verið þátttakandi í hinum ýmsu menningartengdu verkefnum í gegnum árin, hann hefur komið að uppsetningu söngleikja, söngvakeppna, stýrt hljóðkerfum á hinum ýmsu viðburðum og staðið vaktina sem hljóðmaður, tæknimaður, tónlistarstjóri, svo eitthvað sé nefnt, og sinnt þessum verkefnum af miklum metnaði.
Hann er einn af stofnendum Hornfirska Skemmtifélagsins og hefur verið tónlistarstjóri félagsins frá upphafi eða síðan fyrsta sýningin var sett upp haustið 2002. Heiðar starfaði sem tónlistarkennari í Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu frá árinu 2005 til 2016 og kenndi þar nemendum á hljóðfæri og tónfræði.
Heiðar hefur verið kórstjóri Kvennakórs Hornafjarðar frá árinu 2009. Hann hefur samið og útsett fjöldann allan af lögum og leitt kórinn í hinum ýmsu söngverkefnum innan lands sem utan. Heiðar stýrir kórnum af miklum metnaði og eldmóð.
Atvinnu og rannsóknarsjóður
Bjarn Ólafur Stefánsson fulltrúi í Atvinnu- og menningarmálanefndar afhenti styrki atvinnu og rannsóknarsjóðs, fram kom í máli hans að í ár hafi nefndinni borist 12 metnaðarfullar umsóknir í sjóðinn. Hljóðaði heildarupphæð umsóknanna upp á rúmar tíu miljónir en alls voru 2.3 milljónir króna til úthlutunar.
Einnig tók Bjarni Ólafur fram að meginhlutverk sjóðsins væri: „Að efla byggð og atvinnu í Sveitarfélaginu Hornafirði og er sjóðnum ætlað að veita styrki til verkefna sem lúta að atvinnuþróun, rannsóknum og nýsköpun í Sveitarfélaginu Hornafirði.“
Í ár var einni milljón úthlutað úr A-hluta og hlaut HLS styrkinn að þessu sinni fyrir verkefnið „Eystrahorn – Mannlífsþættir“
Úr B-hluta var úthlutað 1.3 milljónum. Náttúrustofa Suðausturlands hlaut tvo styrki, annarsvegar fyrir verkefnið „Tjarnir – rannsókn á fuglalífi við tjarnir“ og hinsvegar fyrir „verkefnið „Lurkana heim – til sýningar eftir forvörslu“. Ennfremur hlaut Sigurlaug Gissurardóttir styrk fyrir verkefnið „Skrásetning á sögu kvenfélaga í Austur-Skaftafellssýslu“ og Íris Ragnarsdóttir Pedersen og Erla Guðný Helgadóttir fyrir verkefnið “Öræfaskólinn”
Umhverfisviðurkenningar
Finnur Smári Torfason, varaformaður umhverfis- og skipulagsnefndar veitti umhverfisviðurkenningar fyrir hönd nefndarinnar.
Tilgangur viðurkenninganna er að vekja íbúa sveitarfélagsins til umhugsunar um gildi náttúru og umhverfis á samfélagið og jafnframt að hvetja þá til að sýna náttúru og umhverfi tilhlýðilega virðingu.
Í ár voru veittar þrjár viðurkenningar. Í flokki fyrirtækja og stofnana, lögbýla og að auki var veitt viðurkenning fyrir fallega lóð.
Heiðrún Þorsteinsdóttir og Hermann Hansson fengu viðurkenningu fyrir fallega og snyrtilega lóð að Hlíðartúni 14.
Pakkhúsið fékk viðurkenningu í flokki fyrirtækja og stofnana fyrir vel hirta og snyrtilega lóð.
Gunnar Helgason og Hafdís Bergmannsdóttir að Stóra-Bóli fengu viðurkenningu fyrir fallegt og snyrtilegt lögbýli.
Hornfirðingar eru hvattir til að taka fyrrnefnda aðila til fyrirmyndar, umhverfi og samfélagi til góðs. Einnig eru íbúar hvattir til að senda inn tilnefningar til umhverfisviðurkenninga 2020 í hausts.
Styrkir nefnda og bæjarráðs.
Alls bárust fjórtánumsóknir um Menningarstyrki, og eru þeir veittir félagasamtökum og einstaklingum til menningartengdra verkefna. Fram kom í máli Eyrúnar Helgu að með þessum styrkjum vilji nefndin hvetja og styrkja félagasamtök og einstaklinga til frekari starfa í þágu menningar.
Eftirtalin félagasamtök hlutu styrk að þessu sinni:
Blús og rokkklúbbur Hornafjarðar, Gleðigjafar, Hornfirska Skemmtifélagið, Karlakórinn Jökull Kvennakór Hornafjarðar, Leikfélag Hornafjarðar, Lúðrasveit Hornafjarðar , Samkór Hornafjarðar Heiðar Sigurðsson „Þú komst með jólin til mín“ , Teresa María Rivarola „Fingraleikhús“, Viljahjálmur Magnússon „Vírdós“, Félag Harmonikkuunnenda, Félag áhugafólks um myndlist, Barnastarf Hafnarkirkju.
Frá fræðslu- og tómstundanefnd fengu sex félagasamtök styrki en það voru: Hestamannafélagið Hornfirðingur, Klifurfélag Öræfinga, Umf. Sindri – rafíþróttadeild, Umf. Sindri – fimleikadeild, foreldrafélag Sjónarhóls og foreldrafélag Grunnskóla Hornafjarðar.
Bæjarráð veitti eftirtöldum styrki í ár. Karlakórinn Jökull styrkur til að halda Kötlu- landsmót Karlakóra, Skógræktarfélag Austurskaftafellssýslu, Hirðingjarnir og Umhverfissamtök Austurskaftafellsýslu.
Athöfnin var hátíðleg að vanda Unnur Birna og Bjössi Thor tóku lagið með hljómsveit sinni og Karlakórinn Jökull tók vel valin lög undir stjórn Jóhann Morávek og undirleik Guðlaugar Hestnes.
Öllum styrk- og verðlaunahöfum er óskað til hamingju.