Næturútvarp í Svavarssafni

Sýning Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur Næturútvarp í Svavarssafni

14. nóv. 2023

Sýningin Næturútvarp opnaði í Svavarssafni 28. október...Nota1

Laugardaginn 28. október opnaði sýningin Næturútvarp í Svavarssafni. Um er að ræða einkasýningu Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur sem innblásin er af abstrakt geometrísku verki eftir Svavar Guðnason. Sýningarstjóri er Margrét Áskelsdóttir.Nota-3
Sýningin Næturútvarp er innblásin af abstakt geometrísku verki eftir Svavar Guðnason sem hann nefndi Næturútvarp á Öræfajökli og tileinkaði vini sínum, tónskáldinu Jóni Leifs. Ljóðrænn titill verksins vekur upp margar spurningar og það sama má segja um tileinkunina. Í sýningarskrá segir:Nota-2

Næturútvarp eftir Ástu Fanneyju Sigurðardóttur er óður til horfinna tíma, en einnig ákall til framtíðar. Verk hennar eru jafnan óræð og draumkennd. Þau hafa djúpa meiningu sem er jafnframt hulin þoku. Svavar Guðnason færðist sjálfur, jafnan undan því að skilgreina myndlist sína en sagði að litirnir væru töfratónar. Æska hans og æfi var umvafin fjöllum, skýjuðum himni, söndum og grænni sveit undir birtuveröld Vatnajökuls. Svavar var líkt og Jón Leifs í sífelldri leit að sannri list. List Svavars, Jóns og Ástu á það sameiginlegt að verk þeirra lúta ekki nákvæmum skilgreiningum heldur skírskota til hughrifa og tilfinninga.Nota-4

Á sýningunni Næturútvarp koma saman ólíkir miðlar, ljósmyndun, vídjóverk, hljóðverk, skúlptúrar og málverk. Ásta Fanney skar út nótnablöð með tónverkum Jón Leifs eftir geometrískum formum úr verki Svavars og vann úr þeim með sellóleikaranum Gyðu Valtýsdóttur og píanóleikaranum Ásthildi Ákadóttur, tónverk sem ómar í salnum.
Sýningin er mjúk hrynjandi með sterku hljómfalli draumkenndra andstæðna og nýrra tíma.