Nr. 5 Umhverfing

Nr. 5 Umhverfing er stærsta listasýning í sögu Hornafjarðar

7. ágú. 2024

Gestir-a-opnunÞann 28. júní opnaði stærsta listasýning í sögu Hornafjarðar á Humarhátíð ...

Þann 28. júní opnaði í Gömlubúð listasýningin Nr. 5 Umhverfing. Um er að ræða samstarfsverkefni á vegum Listasafn Svavars Guðnasonar og Akademíu skynjunar, en hún samanstendur af þeim Þórdísi Öldu Sigurðardóttur, Önnu Eyjólfs og Ragnhildi Stefánsdóttur. Þær hafa áður staðið fyrir svipuðum sýningum og gefið út samnefndar bækur í þessari sýningarröð. Nr. 1Umhverfing fór fram í Skagafirði, Nr.2 Fljótsdalshéraði, Nr.3 á Snæfellsnesi og Nr. 4 á öllum Vestfjörðum. Sú síðasta í upptalningunni var með 130 listamönnum á svæði sem náði yfir allt norðvesturhorn Íslands og gæti verið stærsta samsýning í sem hingað til hefur verið haldin á Íslandi.

Nr. 5 Umhverfing er einnig umfangsmikil. Fimmtíu og tveir listamenn sýna verk á sýningunni sem nær frá Öræfum og út í Lón, s.s. um gervallt sveitarfélagið Hornafjörð. Sýningarstaðir eru einnig mjög fjölbreyttir. Sem dæmi má nefna Selið, gamall torfbær staðsettur í Skaftafelli á svæði þjóðgarðsins (en í vörslu Þjóðminjasafnsins) sýna listamenn sem eru afkomendur og tengdabörn síðustu íbúa Selsins. Það eru þau Bjarni Þór Pétursson, Inga Sigga Ragnarsdóttir, Ingibjörg Sigurjónsdóttir, Katrín Agnes Klar, Lukas Kindermann og Ragnar Kjartansson.

Í nágrenni við Selið í gamla sláturhúsinu á Fagurhólsmýri sýna svo tveir listamenn til viðbótar, þeir Halldór Ásgeirsson og Spessi. Einnig er hægt að koma í pönnukökur til Evu Bjarnadóttur í gamla kaupfélagshúsinu meðan sýningin stendur yfir, og á Café Vatnajökul rétt fyrir ofan sýnir Stefanía Ragnarsdóttir málverk.

Þegar keyrt er lengra vestur er hægt að stoppa við Jökulsárlón og virða fyrir sér ljósmyndir Lovísu Fanney undir brúnni. Á Hala í Suðursveit á Þórbergssetri eru María Sjöfn, Gunnar Árnason og Gunnhildur Þórðardóttir með verk. Þess má geta að einnig er hægt að virða fyrir sér ljósmyndir Evu Schram á sama stað þó þau séu ekki hluti Umhverfingar heldur sjálfstæð verk.

Mæðgurnar Ragnhildur Stefánsdóttir og Ragnhildur Weisshappel hafa reist völundarhús á skógræktarsvæðinu í Haukafelli. Sú síðarnefnda er einnig með vídjóverk á flugstöð Hornafjarðar. Inga Jónsdóttir er með innsetningu nærri Hoffellsjökli innblásinni af eyðibýlinu Viðborði á Mýrum, sem reist var 1937. 

Á Höfn er mikill fjöldi listamanna. Á Svavarssafni má sjá verk eftir listamennina Laufey Johansen, Ísar Svan Gautason, Skrými, Hörpu Árnadóttur og Helgu Erlendsdóttur og úr safneign, verk Svavars Guðnasonar, Höskuldar Björnssonar, Sigurðar Einarssonar, Rafns Eiríkssonar og Jón Þorleifssonar. Ragnhildur Ragnarsdóttir sýnir grafíkverk á bókasafninu en á torginu milli bókasafns og listasafnsins stendur skúlptúr eftir Guðrúnu Benediktu Elíasdóttur. Haraldur Jónsson, Ragnheiður Sigurðardóttir Bjarnarson og Lísa Þorsteinsdóttir eru einnig með skúlptúra utandyra. Hjónin Tim Junge og Lind Völundardóttir eru með veggmynd utan á Nýheimum.

Ruri-fremur-gjorning-7

Í Gömlubúð eru svo verk eftir Ragnar Axelsson, Rúrí, Guðjón R. Sigurðsson, Ósk Vilhjálmsdóttur, Þórdísi Öldu Sigurðardóttur, Janet Laurence og Martina Priehodová. Skammt frá er innsetning eftir Arngrím Borgþórsson og Jónu Berglind Stefánsdóttur í skreiðarskemmunni. Í Miklagarði sýnir Hanna Dís Whitehead og Gerður Guðmundsdóttir, og inn í Heppu eru Sædís Harpa Stefánsdóttir og Stella Ögmundsdóttir. Þess má geta að Rúrí framdi gjörning á opnun sýningarinnar.

Í Lóni sýna tvær listakonur þær Eyrún Axelsdóttir á Hrafnavöllum og Eygló Harðardóttir í fundarhúsi Lónmanna.

Nánari upplýsingar um sýninguna má svo finna á heimasíðu Akademíu Skynjunar: https://www.academyofthesenses.is/nr5-umhverfing-no-5-around