Ólafur B. Schram kynnir bókina Höpp og Glöpp á Hótel Höfn 4.11. kl 20:00
Bókin Höpp og Glöpp kemur út 1.11. Bók fyrir allt fullorðið fólk, full af sögum, viðureignum, dauðafærum og uppákomum, ekkert nema höpp og glöpp.
Umferð bíla
Ég var svo heppinn að fá að fara í sveit sem barn og unglingur. Ég var ennþá heppnari en aðrir því að ég fór í Öræfin. Samgöngur voru öðruvísi þá. Til dæmis voru bara ein eða tvær brýr frá Núpsstað í vestursýslunni að Hala í Suðursveit. Virkisá og Skafta-fellsá höfðu verið brúaðar skömmu áður en ég fór austur í fyrsta skipti. Á bænum var sími, tengdur í sveitalínuna og auðvelt var að hlusta eftir fréttum. Þá komu í Öræfin, um 10 til 20 manns á sumri. Mest voru þetta vísindamenn sem áttu erindi við Kvískerjabræður eða í Skaftafell til Ragnars í Hæðunum, síðar þjóðgarðsvarðar, og Jakobs í Böltanum.
Eldra fólkið á mínum bæ hafði nákvæma yfirsýn um hver var á hverjum stað á hverjum tíma og hversu lengi þeir ætluðu að vera. Talnatímabil voru frá þriðjudegi til þriðjudags, því þá var flogið til Reykjavíkur. Enginn komst austur né að austan nema með flugi á þriðjudögum. Þegar brúin kom á Jökulsá á Breiðamerkursandi opnaðist fyrir vegasamband og var sú samgöngubót miklu mikilvægari fyrir Öræfinga heldur en Skeiðarárbrúin 1974. Þeir áttu eftirsóknarverðari erindi austur á Höfn, þar var læknirinn, þar voru búðirnar. Jökulsárbrúin var vígð með viðhöfn 1967. Ég var þá orðinn unglingur og vildi taka þátt í þessum fögnuði og flaug því austur. Brúarvígsluballið var náttúrulega það sem ég var að sækjast eftir. Það var haldið framundan bænum mínum, í Fundarhúsinu, sem af aðfluttum er stundum kallað Þinghúsið nú til dags. Þar er nú gisting. Ein af stærstu stundum lífs míns var einmitt morguninn eftir ballið. Þá varð ég vitni að ótrúlega sögulegu atviki.
Ég fór snemma fram úr á sunnudagsmorgni, er svokallaður A-maður. Á hlaðinu stóðu tvær systur Gunnars bónda míns og Jón, pabbi Sigrúnar bónda og konu Gunnars. Þau mændu öll í austurátt, austur með Hofsfjallinu. Það var bíll að koma að austan. Bíll sem enginn þeirra hafði séð áður né heyrt um að væri væntanlegur. Þetta var að mínu viti fyrsti bíllinn sem kom vestar í sveitina á þessum sunnudegi, deginum eftir brúarvígsluna. „hann er grænn!“ heyrði ég og leit í átt að rykmekki frá bílnum. Aðeins einn grænn bíll var í allri sveitinni, Vípon á Svína-felli. Ekki gat þetta verið hann því hann var ennþá í Svínafelli þennan morgun. Bíllinn ók hægt í vesturátt og nú óx spenningurinn. Um tvær leiðir var um að velja framhjá bænum, heimtröðin sem liggur að kirkjunni eða fyrir utan túnin í „veitunni“. Hann fór ytri leiðina og enginn gat séð hversu margt fólk þetta var, hverjir þetta væru, hvaða erindi þeir ættu til vesturs, hversu lengi þeir myndu vera þar og hvenær væri von á þessum bíl framhjá bænum aftur! Gamli maðurinn sneri sér, vatt upp á sig og skyrpti um leið og hann sagði: „Svona verður þetta eftir að brúin kom!“ Hér varð ég vitni að algeru heljarstökki. Íbúar bæjarins höfðu frá aldaöðli vitað upp á hár hver var á ferðinni, í hvaða erindagjörðum, hversu margir, hversu lengi, við hvern þeir hefðu samband og hvenær þeir færu úr sveitinni. Þessi stund líður mér aldrei úr minni.