Bóndadagur og þorri

25. jan. 2019

Þorri var fjórði mánuður vetrar, og við upphaf hans telst veturinn vera hálfnaður. Mánuðurinn hefst á föstudegi 13. viku vetrar sem núna er á bilinu 19.-25. janúar.

Árni Björnsson segir frá þorranum og hefðum tengdum honum og bóndadegi í bók sinni Saga daganna og kemur hér örstutt samantekt úr kafla hans um þorrann.  

Lítið er til af rituðum heimildum um þorrann og bóndadag fyrir tuttugustu öldina, en Árni dregur þá ályktun að þessi heiti hafi þó verið almennt notuð í talmáli, því þau breyddust það hratt upp úr 1930. Því má telja líklegt að þessi heiti hafi verið í almennri notkun, en ekki hafi verið skrifað um þau, né þau birt þegar menn óttuðust reiði kirkjunnar ef upp kæmist að haldið væri í þessa heiðnu siði. En ljóst er að mánaðarheitið er mjög gamalt. Það kemur fram í handritum frá 12. öld og svo virðist sem svokölluð þorrablót hafi einnig verið haldin á Íslandi áður en kristin trú var tekin upp, því til eru heimildir um það að íslendingum sé enn heimilt að blóta eftir siðaskiptin, svo lengi sem blótað er á laun.  

Svo virðist sem reglurnar um umfjöllun heiðinna hefða sé farin að slakna á 17. öld, en þá strax er aftur farið að yrkja um þorrann. Oftar en ekki er hann persónugerður í þessum kvæðum honum er lýst sem miklu glæsimenni eins og stórum og sterkum víkingi eða voldugum konungi eða sem larfalegum förummanni. Oftar enn ekki ortu prestar um þorrann á seinni háttinn. En í báðum lýsingunum er Þorri þó heimtufrekur og geðstirður, og jafnvel harður og grimmur. 

Á 18. öld færist umfjöllun um þorrann strax í aukanna, en það að halda upp á þorrakomu virðist fyrst og fremst hafa verið siður hjá alþýðunni sem dæmi má nefna bréf sem síra Jón Halldórsson skrifar til Árna Magnússonar að þetta séu ekki merkilegar skemmtanir og segir m.a. "Eg fyrirvirði mig að setja a papyr til göfugra persóna soddan fávisku." Eða með öðrum orðum vill hann gera sem minnst úr skemmtanahöldum almúgans. 

Árni bendir á að ólíklegt sé að fólk hafi verið að taka upp á þessum siðum á 17. og 18. öld, þar sem hægt var að kenna þetta við heiðnidóm og jafnvel túlka sem kukl. Af þessum ástæðum vill hann meina að það sé líklegra að þessar móttökur þorra séu leifar af gömlum alþýðlegum menningararfi.

Svo virðist sem það hafi verið siður að taka rausnarlega á móti Þorra. Mikilvægt var að veita vel í mat, drykk og klæðum, en væri ekki tekið nógu vel á móti honum var næsta víst að hann myndi hefna þess grimmilega. Misjafnt var eftir landssvæðum, hvort móttaka Þorra væri helst í höndum karla eða kvenna, sumsstaðar áttu bændur t.d. að taka til mat á þessum degi, sem annars hefur verið starf kvenna, annarsstaðar átti húsfreyja að stjana við húsbóndann sem var þá táknmynd Þorra. En allsstaðar, átti þó einnig að gera vel við bændur og var almennt lagt meira í mat og drykk heldur en aðra daga á þessum árstíma. Ein frásögn um móttöku þorra er á þessa leið:

Þess vegna var það skylda bænda "að fagna þorra" eða "bjóða honum í garð" með því að þeir áttu að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir að fara ofan og út í skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra brókarskálmina og láta hina svo lafa eða draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum allan bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkominn í garð eða til húsa. Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu fyrsta þorradag; þetta hét "að fagna þorra".

 

Í lok 19. aldar fer svo að bera á því í þéttbýlum að farið sé að auglýsa þorrablót. Í byrjun 20 aldar dreyfist þessi siður einnig í dreifbýli, og má til gamans geta að Árni nefnir að þorrablót hafi t.d. verið haldið í Suðursveit árið 1915. 

Eins og segir hér að ofan var siður að gera vel við sig í mat og drykk á þorranum. Það á enn við, en þó varð sá siður til um miðja tuttugustu öldina að fara að bjóða upp á þjóðlegann mat í trogi, sem við köllum núorðið þorramat, enda er orðið erfitt að nálgast þessar kræsingar utan þorrans. Önnur hefð sem varðveist hefur í gegnum aldirnar er að gera vel við bóndann, og hefur sá siður til dæmis orðið til á tuttugustu öldinni að færa bónda blóm á bóndadaginn. 

Þorrinn endar svo á þorraþræl, sem er viss feginsdagur þar sem harðasti mánuður vetrarins er þar með búinn.