Uppskeruhátíð Sumarlestursins 2025
Síðastliðinn laugardag var hin langþráða Uppskeruhátíð Sumarlestursins 2025 haldin á bókasafni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar en þar fögnuðum við því hvað börnin okkar voru dugleg að lesa heima í sumar. Alls tóku 20 börn þátt í sumarlestrinum sem var samansettur úr tveimur lestrarátökum, annars vegar LestrarHestrinum og hins vegar LestrarSprettinum.
Munurinn á þessu tvennur er sá að LestrarHesturinn er okkar verkefni hér á Höfn og hefur verið í gangi á sumrin í mörg ár. Þar skrá börnin niður 10 bækur á þátttökumiða frá okkur og skila honum svo inn á bókasafnið. Því meiri lestur, því fleiri miðar koma til okkar.
LestrarSpretturinn er hins vegar í gangi á flestum almenningsbókasöfnum á landinu. Hann breytist frá ári til árs; einu sinni var hann spil, annað sumar söfnuðu börn límmiðum og í ár var lestrarspretturinn tileinkaður Lindu Landnámshænu þar sem börnin fengu vegabréf um landið hennar Lindu og áttu að lesa í 15 mínútur á dag. Þegar þau höfðu lesið í 1 klst máttu þau koma á bókasafnið og skila inn þátttökumiða í kassann okkar líkt og í LestrarHestinum.
Alls tóku 20 börn þátt í sumarlestrinum í ár og mörg hver tóku bæði þátt í LestrarHestinum og LestrarSprettinum. Í LestarHestinum lásu þau 252 bækur eða ríflega 11.000 blaðsíður. En í LestrarSprettinum fengum við inn 50 þátttökumiða sem þýðir 50 klst í lestri. VEL GERT KRAKKAR!
Hin heppna í ár var Steinunn Lilja Tjörvadóttir!
TIL HAMINGJU KRAKKAR OG TAKK FYRIR AÐ TAKA ÞÁTT Í SUMARLESTRINUM 2025