• Mynd_1

Uppskeruhátíð Sumarlestursins 2025

17. sep. 2025

Síðastliðinn laugardag var hin langþráða Uppskeruhátíð Sumarlestursins 2025 haldin á bókasafni Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar en þar fögnuðum við því hvað börnin okkar voru dugleg að lesa heima í sumar. Alls tóku 20 börn þátt í sumarlestrinum sem var samansettur úr tveimur lestrarátökum, annars vegar LestrarHestrinum og hins vegar LestrarSprettinum.

Munurinn á þessu tvennur er sá að LestrarHesturinn er okkar verkefni hér á Höfn og hefur verið í gangi á sumrin í mörg ár. Þar skrá börnin niður 10 bækur á þátttökumiða frá okkur og skila honum svo inn á bókasafnið. Því meiri lestur, því fleiri miðar koma til okkar.

Mynd_2LestrarSpretturinn er hins vegar í gangi á flestum almenningsbókasöfnum á landinu. Hann breytist frá ári til árs; einu sinni var hann spil, annað sumar söfnuðu börn límmiðum og í ár var lestrarspretturinn tileinkaður Lindu Landnámshænu þar sem börnin fengu vegabréf um landið hennar Lindu og áttu að lesa í 15 mínútur á dag. Þegar þau höfðu lesið í 1 klst máttu þau koma á bókasafnið og skila inn þátttökumiða í kassann okkar líkt og í LestrarHestinum.

Mynd_3Alls tóku 20 börn þátt í sumarlestrinum í ár og mörg hver tóku bæði þátt í LestrarHestinum og LestrarSprettinum. Í LestarHestinum lásu þau 252 bækur eða ríflega 11.000 blaðsíður. En í LestrarSprettinum fengum við inn 50 þátttökumiða sem þýðir 50 klst í lestri. VEL GERT KRAKKAR!

Allir þátttakendur í Sumarlestrinum fengu þátttökuverðlaun að gjöf en það var bókin Piparkökuborgin eftir Ævar Þór Benediktsson eða Ævar Vísindamann. Bókin er hluti af Þín eigin Saga seríunni þar sem börnin ráða sjálf endinum á bókinni. Það er svo hægt að lesa bókina aftur og aftur og alltaf endar hún á ólíkan máta. Auk þess var dreginn út einn heppinn lesandi sem hlaut gjafabréf frá Pennanum Eymundsson að launum.

Hin heppna í ár var Steinunn Lilja Tjörvadóttir!

Mynd_4

Mynd_5

TIL HAMINGJU KRAKKAR OG TAKK FYRIR AÐ TAKA ÞÁTT Í SUMARLESTRINUM 2025