Til staðar

Listamannaspjall 02.02.2021 : Katrín Sigurðardóttir

  • 2.2.2021 - 5.5.2021

Af tilefni opnunar sýningarinnar Til staðar í Svavarssafni fór fram Listamannaspjall milli Katrínar Sigurðardóttur myndlistarmannas og Auðar Mikaelsdóttur sýningastjóra.

Katrín ræddi um vinnu sína og hugmyndafræði en í verkinu hefur hún unnið með þær sérstöku aðstæður sem skapast hafa á Íslandi vegna heimsfaraldursins og beint sjónum að því frábæra listsköpunarefni sem er landið sjálft. Viðstaddir tóku þátt í líflegum umræðum og fór spjallið fram í beinu streymi.

Hér má skoða spjallið

Listamannaspjall með Katrínu Sigurðardóttur

Til staðar eru þrjár innsetningar í náttúru Íslands og heimildir í formi ljósmynda og myndbands. Þessi staðbundnu verk voru unnin á afviknum stöðum í þremur landsfjórðungum en hugmyndin að baki verkinu tengist samspili hráefnis sem staðsetningar, mannlegs inngrips og ferlum náttúrunnar sjálfrar.

Katrín Sigurðardóttir hefur á 30 ára ferli sýnt skúlptúra, teikningar, ljósmyndaverk og stórar innsetningar sem umbreyta reynslu og upplifun áhorfandans. Undanfarin ár hefur hún unnið með efnislega frumferla jarðarinnar í verkum sínum. Katrín hefur átt mikilli velgengni að fagna og verk hennar verið sýnd víða um heim. Hún hefur m.a. verið fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum, Sao Paulo Tvíæringnum í Brasilíu, Momentum í Noregi og Rabat tvíæringnum í Marokkó. Einkasýning hennar í Metropolitan safninu í New York borg árið 2010 vakti mikla athygli.

Sýningin mun standa til 5. maí 2021.