Héraðsskjalasafn Austur-Skaftafellssýslu
Árið 1956 kom sú hugmynd fram á Bændafundi Austur-Skaftfellinga að komið yrði á fót héraðsskjalasafni samkvæmt gildandi lögum þar um. Sýslunefnd tók vel í þessa tillögu og kaus tvo menn til að athuga málið í samráði við Þjóðskjalavörð.
Fyrsta formlega skjalasafnið var opnað 1987 í húsnæði Borgeyjar við Krosseyjarveg, en hafði þó einhverju skjalasafni verið komið á fót fyrir, af frumkvæði sjálfboðaliða. Árið 1990 var allur rekstur safna í sýslunni sameinaður undir nafni Sýslusafns Austur-Skaftafellssýslu og flutti skjalasafnið þá í húsnæði bókasafns að Hafnarbraut. Um aldamótin var nafni stofnunarinnar breytt í Menningarmiðstöð Hornafjarðar og stuttu seinna flutti hún svo í Nýheima. Þar með var komin góð aðstaða til að vinna við frekari söfnun og skráningu skjala, sem þröngur húsakostur hafði hamlað á Hafnarbrautinni.
Héraðsskjalasafnið starfar í samræmi við reglugerð um héraðsskjalasöfn, landslög og eftir gildandi stofnskrá Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar. Safnsvæði þess er Austur-Skaftafellssýsla. Héraðsskjalasafn er sjálfstætt starfandi skjalavörslustofnun sem lýtur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands og annast söfnun, innheimtu og varðveislu skjala um sögu héraðsins og íbúa þess ásamt skrásetningu þeirra. Héraðsskjalavörður hefur eftirlit með skjalavörslu bæjarstofnana og varðveitir eldri skjöl bæjarins á tryggann hátt. Héraðsskjalasafn leitast við að skrá safnkostinn.
Héraðsskjalavörður er einnig í því að rannsaka og kynna sögu héraðsins, t.d. með sýningum á sögulegum heimildum og útgáfum, má þar m.a. nefna útgáfu Skaftfellings. Héraðsskjalasafnið vinnur með öðrum stofnunum Menningarmiðstöðvarinnar. Héraðsskjalasafnið stuðlar að auknum rannsóknum almennings og fræðimanna á sögu héraðsins.
Einnig skal nefna að aðgangur getur verið takmarkaður vegna persónuverndar og öðrum lögum þar um. Einnig geta afhendingaraðilar einkaskjalasafna sett skilyrði um aðgang og skjöl sem innihalda viðkvæmar upplýsingar um persónulega hagi einstaklinga eru ekki opin öðrum en þeim sem málið varðar fyrr en að 80 árum liðnum frá myndun þeirra. Takmarka þarf aðgang að sumum skjölum vegna slæms ásigkomulags. Gestir og gangandi geta komið við á Héraðsskjalasafninu, fengið aðstoð hjá héraðsskjalaverði, við að finna skjöl og þau má ljósrita fyrir frekari rannsóknir, en skjöl eru ekki til útláns. Þjónusta við almenning felst m.a. í því að svara fyrirspurnum úr skjölum og aðstoða gesti safnsins. Ennfremur tekur safnið á móti einkaskjalasöfnum frá einstaklingum, félögum og fyrirtækjum í héraðinu.
Níu manns hafa sinnt starfi safnvarðar Héraðsskjalasafns og eru það í réttri tímaröð: Gísli Björnsson, Gísli Sverrir Árnason, Erla Hulda Halldórsdóttir, Hulda Sigurdís Þráinsdóttir, Sigurður Örn Hannesson, Guðný Hafdís Svavarsdóttir, Gunnar Stígur Reynisson, Halldóra Jónsdóttir og núverandi safnvörður er Dagur Snær Guðmundsson
Hægt er að ná beint í skjalasafnið í síma 470-8056 eða á netfangið skjalasafn@hornafjordur.is