Bergmál hins liðna
Í mars árið 2001 afhenti Jónína Brunnan bókasafninu á Höfn ljóð sín, æviminningar og sögur og er gjöfin varðveitt á Héraðsskjalasafni Austur-Skaftfellinga.
Í mars árið 2001 afhenti Jónína Brunnan bókasafninu á Höfn ljóð sín, æviminningar og sögur og er gjöfin varðveitt á Héraðsskjalasafni Austur-Skaftfellinga.
Jónína Guðbjörg Jónsdóttir Brunnan fæddist að Brekku í Vestmannaeyjum 16. ágúst 1918, á fullveldisári Íslands, og hefði því orðið 100 ára á þessu ári. Hún lést 20. apríl 2006. Móður sína, Jónínu Guðbjörgu Jóhannsdóttur (f. 1889, d. 1918) missti hún skömmu eftir fæðingu en ólst upp hjá föður sínum, Jóni Jónssyni Brunnan (f. 1884, d. 1963) og systrum hans við mikið ástríki. Móðir Jónínu var ættuð úr Húnavatnssýslu en faðir hennar var fæddur á Brunnum í Suðursveit en fluttist með foreldrum sínum og systkinum að Hlíð í Lóni og seinna í Krossaland í sömu sveit.
Jónína var sitt fyrsta ár í Vestmannaeyjum hjá föður sínum en Elín systir hans fór til Eyja að annast barnið. Um vorið 1919 fluttist Jón með dóttur sína og fósturson austur í Krossaland í Lóni og eru þau þar til 1926 er þau flytja á Höfn.
Þetta sama vor festi Jón kaup á mótorbát í félagi við mág sinn Sigurð Ólafsson og stunduðu þeir útgerð til ársins 1946. Þeir reistu sér hús sem fékk nafnið Skálholt en var í daglegu tali alltaf kallað Hvammur og er nú Ránarslóð 2. Þar ólst Jónína upp og í æviminningum sínum segir Jónína meðal annars um æskuheimili sitt:
„Á sjávarbakkanum, undir hólnum, stóð Hvammshúsið, og stendur reyndar enn í dag þótt umhverfið sé nú orðið óþekkjanlegt. Mitt æskuheimili var aldrei kallað annað en Hvammur, en húsið hét reyndar Skálholt, og var kennt við biskupssetrið forna vegna mikilla umsvifa og stórra athafna, en orðið Hvammur felur í sér ljóðræna merkingu. Hugur minn hneig meir að því heiti, enda náði það málfestu í daglegu tali. Umhverfið skóp þennan ljóðræna ramma.“
Jónína stundaði nám við Kvennaskólann í Reykjavík veturinn 1935-36 og sótti hússtjórnarnámskeið á Laugarvatni árið 1939. Í Hvammi byrjaði Jónína sinn búskap með eiginmanni sínum Ársæli Guðjónssyni útgerðamanni frá Byggðarholti í Fáskrúðsfirði en þau giftu sig 1943 og var heimili þeirra Ársæls alla tíð á Höfn. Þau byggðu sér hús sem fékk nafnið Sólberg, er nú Ránarslóð 12, en þangað fluttu þau 1946 ásamt Jóni Brunnan og systkinum hans. Árið 1979 fluttu þau aftur í nýtt hús, á einni hæð, sem þau reistu sér að Austurbraut 4. Jónína tók virkan þátt í félagsmálum á Höfn og var fyrsti formaður kvennadeildar slysavarnafélagsins sem stofnað var 1954 og seinna heiðursfélagi þess.
Jónína og Ársæll eignuðust fimm syni og komust fjórir þeirra á legg en Jónína þurfti að horfa á eftir öllum drengjunum sínum og eiginmanni „inn í land hins ókomna, sem allra bíður að leiðarlokum.“ Hún bjó yfir jafnaðargeði og jákvæðni. Hún hélt reisn sinni og var sínum nánustu stoð og stytta þegar ósköpin dundu yfir. Hún ólst upp við þá lífsreglu að sælla væri að gefa en þiggja og að best er að una glaður við sitt. Það er fögur lífsregla. Hún var víðlesin og fróð og hafði gaman af að ferðast. Eftir hana liggja margar ferðasögur ásamt smásögum og heilmörg ljóð.