Ferð til eldjöklanna
Halldór Ásgeirsson sýnir í Miklagarði
Halldór Ásgeirsson opnaði sýninguna Ferð til eldjöklanna í Miklagarði á Höfn í Hornafirði 29.júní. Þetta er seinni sýningin sem tengist verkefninu.
Hugmyndin að baki myndlistarverkefninu snýst um náttúrukrafta Vatnajökuls í samtali við sögu, menningu og umhverfi sveitarinnar við rætur jökulsins. Sýningarheitið er fengið úr Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen sem ferðaðist og rannsakaði náttúru suðausturlands í lok 19.aldar. Fyrsti hlutinn birtist s.l. sumar í formi blaktandi myndfána sem settir voru upp tímabundið á völdum stöðum frá Skeiðarársandi að Suðursveit.
Seinni hluti verkefnisins var aðlagaður og sýndur í húsakynnum Miklagarðs sem er gömul verbúð og sögufrægt hús á Höfn. Ísinn og jarðeldurinn undir yfirborði Vatnajökuls eru þar megin viðfangsefni listamannsins ásamt verkum innblásnum úr gömlum annálum og horfinni menningu héraðsins. Á opnun mun Halldór láta blekliti drjúpa oní jökulís sem bráðnar síðan á hvítar pappírsarkir á gólfi sem verða að einhverskonar myndum þegar Vatnajökull vatnslitar
Á túnbletti fyrir utan Miklagarð munu myndfánar blakta yfir opnunarhelgina með fuglum úr umhverfinu og uppstækkuðum hraunálfum
Halldór Ásgeirsson á langan feril að baki í myndlist en fyrstu verk hans birtust opinberlega um 1980 með innsetningum og gjörningum tengdum frumöflunum. Myndtákn urðu til með ósjálfráðri teikningu sem þróaðist áfram í málverk og veggmyndir. Upp úr 1990 fór Halldór að gera frekari tilraunir með lifandi efni er varð m.a. kveikjan að hraunbræðslu sem ummyndar hraunið við kólnun í svartgljáandi glerunga og töfrar fram óteljandi fyrirbæri að öðrum verkum. Hið lifandi ferli verður stór hluti af myndsköpun og myndheimi listamannsins. Jörðin-eldurinn, vatnið og vindarnir hafa verið ráðandi öfl í margvíslegri myndlist Halldórs frá upphafi.
Halldór hefur búið og starfað á Íslandi, Frakklandi og Japan auk þess að hafa sett upp verk sín víða um heim á löngum listferli.
Verkefnið er styrkt af Sass, Samtökum sveitarfélaga á Suðurlandi og Myndlistarsjóði.