• Hringfarar
    augabragð andartak örskot snöggvast andrá augnablik fljótlega senn bráðlega brátt nú snöggvast þá Hringfari stingur örkina fer og kemur aftur fer og kemur aftur teiknar tíma: Ormagöng í kálblaði koladuft við munann. Dropa daganna hvern með sínum lit hvern með sínu bragði. Kopartaugar og ammonshorn úr blýi molnandi. Lifandi litir og dáin blóm, aldrei vís aldrei eins. portrett af augnablikum svo er Hringfari farinn naglar á auðum veggjum og naglar verða orð aldrei ekkert Laugardaginn 9. október 2021 opnaði sýningin Hringfarar í Svavarssafni. Fjórir listamenn sýna á sýningunni, þau Guðjón Ketilsson, Elsa Dóróthea Gísladóttir, Sólveig Aðalsteinsdóttir og Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir. Öll eiga verk þeirra í sýningunni það sameiginlegt að nýta sér náttúruleg efnafræðileg ferli og skrásetja umbreytingar. Guðjón hlaut íslensku myndlistarverðlaunin í fyrra, en hann vinnur gjarnan með fundna hluti og sögur liðinna atburða sem hann skrásetur og endurskipuleggur. Elsa fæst við hverfulleika, sjálfbærni og alkemíu hversdagsins þar sem tíminn er mikilvægt element. Verk Sólveigar kjarnast í kringum náttúruna, jarðefni, gróður, vöxt og umbreytingar, en hún ræktar sinn listræna garð í vinnustofu sinni í Kjósinni. Efnisviðurinn í verkum Guðrúnar heldur áfram að lifa og breytast vegna umhverfisáhrifa.

Hringfarar

Circuits

Sameiginleg sýning Guðjón Ketilssonar, Elsu Dórótheu Gísladóttur, Sólveigar Aðalsteinsdóttur og Guðrún Hrannar Ragnarsdóttur.

augabragð andartak örskot snöggvast andrá augnablik
fljótlega senn bráðlega brátt
nú snöggvast þá

Hringfari stingur örkina fer og kemur aftur fer og kemur aftur teiknar tíma:
Ormagöng í kálblaði koladuft við munann. Dropa daganna hvern með sínum lit hvern með sínu bragði. Kopartaugar og ammonshorn úr blýi molnandi. Lifandi litir og dáin blóm, aldrei vís aldrei eins.

portrett af augnablikum

svo er Hringfari farinn
naglar á auðum veggjum
og naglar verða orð
aldrei ekkert

Steinunn G. Helgadóttir

Um listamennina úr sýningarskrá:

Guðjón Ketilsson vinnur gjarnan með fundna hluti sem geyma minningar og sögur liðinanna atburða. Hann skrásetur þá, endurskipuleggur og setur í annað og ólíkt samhengi. Undanfarin ár hefur hann m.a. unnið með slíkar færslur og myndgerð ýmissa vökva sem tengjast hversdeginum. Verkin eru þannig eins konar dagbókarfærslur hans sem settar eru fram sem litir á pappír með hugleiðingum um efnið og/eða atburði sem hugsanlega tengjast því.

4N9A2030

Elsa Dóróthea Gísladóttir vinnur með hverfulleika, sjálfbærni, ræktun, lífkerfi og alkemíu hvunndagsins. Tíminn er mikilvægt element. Unnið er með ferla sem tengjast þessum sviðum, oft sem ekki sér fyrir endann á. Útkoman á sér sjálfstætt líf og tilgang í sjálfu sér jafnvel þó hún feli í sér niðurbrot, dauða eða eyðileggingu.

4N9A2026

Sólveig Aðalsteinsdóttir hefur sett upp vinnustofu í Kjósinni og kjarnast verkefni hennar um náttúruna, jarðefni og gróður, vöxt og umbreytingu. Að rækta garðinn sinn, til líkamlegrar og andlegrar næringar má tengja pólitískt sem andóf gegn ríkjandi lífsmáta og er liður í að leggja umhverfinu lið. Vaxtartími gróðursins, hægur eins og skynjunartími hugans getur gefið listaverkinu bæði lit og form- sveigt og beygt vinnuferlið.

4N9A2028
Daglegt umhverfi hefur oft verið kveikjan að verkum hjá Guðrúnu Hrönn Ragnarsdóttur. Rauðrófuhýði í vatni sem hefur myndað rauðan lit, pappírsörk á glugga sem raki hefur teiknað á. Þessar tilviljanir eru kveikja að rannsókn hennar á litum úr blómkrónum afskorinna blóma og jurta. Efnið heldur síðan áfram að lifa og breytast vegna áhrifa umhverfisins.