Hús Kveðja

Sýning og hátíð í Svavarssafni og Öræfum 21.05-10.06.2022

Hvað er hús?

Sýning Evu Bjarnadóttur innblásin af byggðasögu Öræfa, nánar tiltekið Gömlubúð á Fagurhólsmýri.

Eva hlaut menningarverðlaun Austur-Skaftafellssýslu árið 2018 fyrir menningarstarf sitt á Fagurhólsmýri þar sem hún býr. Hús Kveðja er nátengd heimahögum hennar og hefðum þar, en nafnið vísar í hefð sem var fyrir því í Öræfum að kveðja hina látnu heima hjá þeim áður en jarðarförin sjálf fór fram. Hús Kveðja snýst þó ekki um látna manneskju heldur hús sem gengur nú í endurnýjun lífdaga, en frá miðjum sjötta áratug fram á sjöunda áratug síðustu aldar var Kaupfélag Skaftfellinga með vöruhús og verslun undir Blesakletti á Fagurhólsmýri. Breyttir samgönguhættir leiddu á endanum til þess að verslunin var færð og kaupfélagsdeild Öræfinga gekk úr Kaupfélagi Skaftfellinga og í KASK (Kaupfélag Austur-Skaftfellinga).

Þetta hús og þetta tímabil er Evu innblástur í sýninguna. Að þessu sinni býður Svavarssafn þó ekki einungis upp á einfalda opnun, heldur verður dagskrá sem teygir anga sína alla leið á Fagurhólsmýri. Hún er svohljóðandi:

21. Maí- Opnun á Svavarssafni

28. Maí- Ganga út í Salthöfða
(tveir skór) og húskveðja í Gömlubúðinni á Fagurhólsmýri. Ganga klukkan tvö, en húskveðja klukkan hálf-fimm. Viðburðirnir fara fram á Fagurhólsmýri. Eva leiðir gönguna, en fleiri munu lesa ljóð og segja frá á leiðinni. Steinunn Björg Ólafsdóttir, Einar Bjartur Egilsson, Gunnlaugur Bjarnason og María Sól Ingólfsdóttir flytja texta og syngja á húskveðjunni.


2. Júní- Lesið í Hús. Umhverfisheimspekingurinn Guðbjörg R. Jóhannesdóttir og listakonan og rithöfundurinn Auður Hildur Hákonardóttir spjalla ásamt öðrum gestum um fagurfræði og fleira. Klukkan 20:00 í Svavarssafni.

7. Júní- Again the sunset. Inga Huld Hákonardóttir og Yann Leguay flytja gjörning sinn í Svavarssafni. Verkefnið er samstarf Svavarssafns og listahátíð í Reykjavíkur. Þess má geta að þó Inga Huld sé búsett út í Brussel sem mætti kalla höfuðborg danslistarinnar í Evrópu, þá er hún fædd á Höfn. Klukkan 20:00 í Svavarssafni.

10. Júní-Kveðjuhóf í Svavarssafni klukkan 15:00. Um þennan viðburð þarf ekki að segja margt annað en að pönnukökur eru í boði handa gestum.