Litir augans
Erla Þórarinsdóttir sýnir verk sín í samtali við Svavar Guðnason
Þegar hún vaknaði fann hún fögnuð í sál sinni, sem var þvílíkur meðal tilfinninga, sem kvöldroði er meðal lita.
Sýningin stendur frá 3.07-30.09 2021
Texti úr sýningarskrá eftir Jón Proppé :
Þegar hún vaknaði fann hún fögnuð í sál sinni, sem var þvílíkur meðal tilfinninga, sem kvöldroði er meðal lita.
Þessi setning er úr óbirtri smásögu eftir Guðmund Friðjónsson, skáld frá Sandi. Nú man ég ekki lengur hvaðan af landinu konan í sögunni átti að vera, en ef hún var frá Hornafirði hlýtur þessi fögnuður að hafa verið mikill því hvergi má sjá þvílíka litadýrð og þegar sumarsólin þar sest bak við jökulinn.
Helsti listmálari Hornfirðinga, Svavar Guðnason, ólst upp í þessari birtu og þegar hann fór til að mennta sig í Kaupmannahöfn og kynntist ungum listamönnum þar, furðuðu þeir sig á litunum í málverkum hans. Þegar maður skoðar myndir hans er vissulega erfitt að skilja hvernig hægt er að láta alla þessa ólíku liti mynda heild. Útlendingar skrifuðu þetta á hugarflugið, enda þótti Svavar að sumu leyti sérstakur, en þegar Halldór Laxness skrifaði um vin sinn árið 1968 sagði hann afdráttarlaust að þetta væri list „sem á sér sinn raunsæislega uppruna í ljósheimi Vatnajökuls“.
„Ljósheimur“ er fallegt orð og áhrifameira en öll akademísk litafræði. Ljósheimurinn felur í sér alla birtu og skugga, og alla liti sem auga okkar getur numið. Það er í honum sem veröldin í kringum okkur vaknar til lífsins og teiknast fram, og það er líka í honum sem vitund okkar og tilfinningar vakna og þess vegna skiljum við vel líkinguna í sögu Guðmundar skálds.
Af núlifandi íslenskum listamönnum tefla fáir jafndjarft með litina og Svavar, nema Erla Þórarinsdóttir. Hjá henni lifna ótal litir á striganum en ná þó alltaf að vera í einhverju óskiljanlegu jafnvægi, eins og hjá Svavari og eins og í ljósheimi náttúrunnar sjálfrar. Erla notar líka gjarnan blaðsilfur á myndir sínar, skínandi málm sem tekur í sig birtu og orku umhverfisins og gerir það að verkum að myndirnar breytast í hvert skipti sem maður sér þær, allt eftir birtu og sjónarhorni. Það jafnvægi litanna sem Erla og Svavar fást við er langt frá því að vera einhver lognmolla. Þvert á móti má greina í því sjálfstæða krafta, andstæður, hliðstæður og jafnvel fjarstæður, sem takast á af fullri hörku eins og skákmenn í einvígi sem þrátt fyrir öll átökin endar í jafntefli. Jafnvægið er þrungið orku og getur hvenær sem er sprungið aftur upp í átök og óreiðu.
Hjá Erlu endurspeglar ljósheimurinn líka hinn innri heim og átök litanna endurspegla átökin sem eiga sér stað í sál okkar og líkama. Í okkur býr bæði ljós og myrkur, andstæðir litir og samstæðir, harka og mildi, fegurð og ljótleiki. Það er svo ævistarf okkar að reyna að koma öllu þessu í einhvers konar jafnvægi án þess að tapa við það orkunni, án þess að úr verði tóm lognmolla. Orkustöðvar líkama og sálar eru eins og litir í málverki og það er jafn erfitt að finna í þeim samhljóminn. Gott málverk er eins og góð manneskja.
Erla er alþjóðlegur listamaður, alin upp á Íslandi og í Svíþjóð, heimavön í New York, Amsterdam, Kaupmannahöfn, á Indlandi og í Kína. Í litanotkun hennar má þó skýrast sjá endurspeglast ljósheiminn á Íslandi, tærleika birtunnar, hæð litanna og hita heimskautasólarinnar þegar hún roðar fjöll, vötn og jökla. Í textanum um Svavar spyr Laxness hvað það sé sem maður eins og Svavar tekur með sér þegar hann fer út í heim til að verða listamaður. Það er „eitthvað sem ekki fæst í Kaupmannahöfn og fæst heldur ekki í París: upplifun barndómsins í nágrenni Vatnajökuls ... frásögnin um ljós sem hvergi finnst annars staðar í heiminum“.
Ljósmynd eftir Sigurgeir Sigurjónsson