Nær og fjær

Listamaður í mótun

Sýning um mótunarár Svavars Guðnasonar2011-1-51

„Ég var atvinnulaus. Ég var 25 ára – og hafði starfað allt mögulegt – sem fiskimaður, sem bókhaldari, við landbúnaðarstörf, og ég hafði ekið ölbíl í Reykjavík. – Það var slæmt öl.‟

Þannig lýsir Svavar Guðnason sjálfum sér nýkomnum til Kaupmannahafnar árið 1935 í samtali við Berlingske um þremur áratugum síðar. Þetta ár var góðvinur Svavars, Halldór Laxness í þann mund að gefa út síðasta bindið af Sjálfstæðu fólki, Franklin Roosevelt var að skrifa undir fyrstu löggjöf um almannatryggingar í Bandaríkjunum og nýkjörinn forsætisráðherra Þýskalands, Adolf Hitler tók að vígvæða land sitt þvert á alþjóðasáttmála. Það voru s.s. um sex ár síðan kreppan mikla hófst, stærsta alþjóðlega heimskreppa sögunnar, og um fjögur ár í að síðari heimsstyrjöldin, hrikalegasta stríð sem hingað til hefur verið háð, myndi hefjast. Megir þú lifa á áhugaverðum tímum, er sagt vera gömul kínversk bölvun, og tímarnir sem Svavar lifði sem ungur maður voru langt frá því að vera óáhugaverðir. 

Í þessari sýningu kynnumst við leitandi listamanni. Við sjáum rómantísk og ljóðræn landslagsmálverk og framúrstefnuleg abstrakt-málverk í sýningu sem spannar árin sem leiddu frá upphafi kreppunar miklu til seinni heimsstyrjaldar, og ferðalag Svavars frá því að vera áhugamálari yfir í að vera einn af leiðandi framúrstefnumálurum Norðurlandanna.