Opnun listasýningar í Svavarssafni

Listasýning á verkum eftir Bjarna Henriksson listmálara.

Listasýning á verkum eftir Bjarna Henriksson listmálara.

Bjarni var lærður málarameistari, lagði dúka, teppi og flísar auk þess sem hann límdi veggfóður og sinnti vel áhugamáli sínu sem var listmálun. Sagt var að snemma hafi borið á listhneigð hjá honum og stundaði hann listnám, meðal annars í Myndlistar-og handíðaskólanum. 

Listhneigð hans fékk að njóta sín við dagleg störf þar sem hann valdi liti á hýbýli fólks af mikilli alúð og málaði mynstur sem voru einkennandi fyrir hann beint á veggi utanhúss sem innan heima hjá fólki og í fyrirtækjum. Einnig kom fyrir að hann málaði og skreytti húsgögn og innanstokksmuni.

Bjarni var tilraunagjarn í myndum sínum og flakkar á milli margra stíla. Sumir þeirra eru afgerandi og sýna mikinn persónuleika svo að þeir sem á horfa efast ekki um hver höfundur verksins er. 

Skráning á verkum Bassa hefur staðið yfir í um tvö ár og er henni ekki lokið. Tæplega hundrað áhugaverðar myndir og hlutir hafa komið í ljós fram að þessu auk þess sem safnið á nokkuð af myndum.

Listmaðurinn Bjarni setti mark sitt á Hornafjörð á fjölbreyttan hátt og túlkaði lífið hér á áhugaverðan máta í verkum sínum.

Við vonum að myndirnar á sýningunni gefi gestum safnsins innsýn inn í sem flestar víddir listheims hans. 

Sýningin stendur í aðalsal Svavarssafnsins frá 22.01. 2018 – 11. 05. 2018.