SAMTÍMIS

SYNCHRONOUS

Myndlistarsýning Bjarka Bragasonar er samstarfsverkefni  Listasafns ASÍ og Svavarssafns. Bjarki Bragason er þriðji listamaðurinn sem velst til þátttöku í nýlegri sýningaröð Listasafns ASÍ þar sem skipulagðar eru einkasýningar valinna listamanna á tveimur stöðum á landinu. Listasafn ASÍ býr við ágætan húsakost en er starfrækt um þessar mundir án þess að vera með eigin sýningarsal. Á meðan þetta tímabundna ástand varir hefur safnið átt gjöfult og gott samstarf við stofnanir og samtök víðsvegar um landið og skipulagt með þeim sýningar á jafnt eldri sem nýrri verkum. 

Sýningin stendur frá 15. maí til 30. júní 2021.

Sýningin fjallar um skörun á jarðsögulegum og mennskum tíma. Rannsóknarferlið hefur snúist um speglun á tveimur trjám frá ólíkum tímum og stöðum. Í verkunum á sýningunni birtast trjáleifar sem fundust við rætur Breiðamerkurjökuls og hafa verið grafnar í jarðvegi þar í um þrjú þúsund ár og leifar af fornu tré í Sagehen skóginum í Sierra Nevada fjöllum Kaliforníu. Bjarki hefur í rannsókn sinni átt samtal við einstaklinga í ólíkum fögum á borð við jarðfræði, líffræði og fornleifafræði og tekið þátt í leiðangri á vegum Náttúrustofu Suðausturlands og átt vinnustofudvöl við Sagehen Creek Field Station, hluta af Kaliforníuháskóla í Berkeley í rannsóknarskóginum í Sagehen. Bjarki Bragason er fæddur í Reykjavík 1983, lærði myndlist við RCN United World College í Noregi, Listaháskóla Íslands, Universität der Künste í Berlín og lauk framhaldsnámi við CalArts í LA. Árið 2008 hlaut Bjarki styrk úr sjóði Guðmundu Andrésdóttur og síðar Lovelace Scholarship frá CalArts og fyrstu verðlaun Listasjóðs Dungals. Hann hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýningar alþjóðlega. Verk hans eru m.a. í safneign Listasafns ASÍ, Nýlistasafnsins, Listasafns Íslands, Gerðarsafns, stofnana og einkasafna á Íslandi og erlendis. Á meðal einkasýninga má nefna Past Understandings í Listasögusafni Vínarborgar, Desire Ruin í Náttúrufræðisafni Vínarborgar, The Sea við Schildt Stofnunina í Finnlandi og Hluti af hluta af hluta í Listasafni ASÍ 2012.