Sýning á verkum Sigurðar Einarssonar
Í tilefni af því að hundrað ár eru liðin frá fæðingu Sigurðar Einarssonar, efnir Svavarssafn til yfirlitssýningar á málverkum hans í félagsheimilinu Holti. Hér gefur að líta minningar gamals Mýramanns um sveit æskuáranna.
Sigurður sótti myndefni sitt mest í íslenska náttúru og fígúrugerði hana með ýmsum kynjamyndum sem hann las úr landinu, jöklum þess og klettum, vatnsföllum, holtum og hólum.
Kvenfélagið Eining verður með heitt á könnunni.
Sýningin verður opin dagana 21. sept - 23. sept, frá kl. 14:00 - 18:00.
Annars opið eftir samkomulagi.
Sigurður Einarsson fæddist að Gljúfri í Ölfusi þann 21. september árið 1918. Foreldrar hans voru Einar Sigurðsson frá Slindurholti á Mýrum í Hornafirði og Pálína Benediktsdóttir frá Viðborðsseli, síðar Einholti, í sömu sveit. Sigurður var fimmti í röð þrettán barna þeirra Einars og Pálínu.
Sigurður fluttist ungur til Hornafjarðar og kynntist þar Sigríði Bjarnadóttur í Hólabrekku á Mýrum, sem síðar varð eiginkona hans.
Árið 1940 fluttu þau hjón á suðurlandið og sinnti Sigurður þar ýmsum störfum, búskap að Sogni í Ölfusi, sjómennsku, fiskvinnslu, og almennri verkamannavinnu. Um 1960 fluttu þau á Selfoss, þar sem Sigurður vann hjá Mjólkurbúi Flóamanna um langt skeið. Þau fluttu síðan á Ás í Hveragerði þar sem þau áttu sín síðustu ár. Þau hjón áttu 11 börn, fædd á árabilinu 1938 til 1959.
Sigurður lést árið 2007 og Sigríður tveimur árum síðar.