Sýningin Speglun í Svavarssafni
Opnun sumarsýningu Svavarssafns ,,Speglun " föstudaginn 18. maí kl. 17:00.
Á sýningunni Speglun kallast á verk tveggja listamanna, Áslaugar Írisar Katrínar Friðjónsdóttur (f.1981) og Svavars Guðnasonar (f. 1909-1988), sem eiga það sameiginlegt að vinna með óhlutbundið myndmál hvor á sinni öldinni.
Það hefur verið sagt um list Svavars að það sem einkenni myndir hans sé að allur myndflöturinn sé lifandi hvert sem augað leitar. Hjá Áslaugu Írisi lifna við fletir sem áður höfðu enga merkingu í augum fólks, t.d. steypubrot, línoleumdúkur og filtteppi. Verk þeirra ferðast um flötinn og út í rýmið í formi skúlptúra og mynda. Salurinn breytist í veröld þar sem verk þeirra mynda lifandi samtal.
Elstu verk Svavars eru fígúratíf landslagsverk en þó hann leiti á önnur mið í myndefni þá var íslenska birtan og litrófið sem hann sótti til Vatnajökuls alltaf undirliggjandi. Verk Svavars á sýningunni eru frá tveimur tímabilum verk frá því seint á 4. áratugnum, þegar Svavar er að feta sig frá fígúratívu myndmáli í átt að abstrakt myndmáli en einnig verk frá 6. áratugnum þar sem geometrísk abstraktsjón tekur smám saman við á eftir kraftmiklum og litríkum verkum Cobra tímabilsins.
Meðal annars veitir náttúrufegurð Hornafjarðar Áslaugu innblástur líkt og Svavari en hún fangar litbrigðin á flötinn með öðrum hætti í verkum sínum. Fagurgrænir steinar, ljóst líparít með hvítri rönd, dumbrauður jaspis, stórkornóttir hvítir og gráir gabrósteinar, dulkornótt og stakdílótt basaltið sem er ávalt eftir veðrun, draga að sér athygli listamannsins. Flest verk Áslaugar eru gerð sérstaklega fyrir þessa sýningu, þar sem hún mætir til lifandi samtals við módernistann Svavar, en einnig eru á sýningunni tvö verk eftir hana frá árinu 2015.
Verkin á sýningunni Speglun eiga í lifandi samtali þar sem alþjóðlegt tungumál efnis, forma, lita og myndbyggingar er í öndvegi. Þau sýna að abstraktlistin er jafn lifandi í dag og hún var fyrir rúmum sjö áratugum þar sem listamaðurinn kjarnar inntakið með úthugsuðum formum, - hann skapar heim.