Til Staðar

Sýningarskrá

Til Staðar eru þrjár innsetningar í náttúru Íslands og heimildir í formi ljósmynda og myndbands.

 Hin staðbundnu verk voru unnin á afviknum stöðum í þremur landsfjórðungum. Við Hoffell undir Vatnajökli, á Skarðsströnd við Breiðafjörð og í Svalbarðshreppi í Norður-Þingeyjarsýslu. Tilurð verksins má rekja til hinna óvenjulegu aðstæðna sem skapast hafa á Íslandi í kjölfar heimsfaraldurs en hugmynd Katrínar var að skapa verk sem gæti hjarað við svo sérstök skilyrði, fremur en að takmarkast af þeim.

Hugmyndin að baki verkinu tengist samspili hráefnis sem staðsetningar, mannlegs inngrips og ferlum náttúrunnar. Í verkinu hefur Katrín beint sjónum sínum að því frábæra listsköpunarefni sem er landið sjálft. Viðfangið er náttúran og efniviðurinn er jörðin. Hér skapast verk úr efni sem hvorki þarf að kaupa né flytja að og ekkert er flutt í burtu – listaverkið verður til á staðnum.

Verkið er unnið in situ á ógrónum reit þar sem jarðvegur var grafinn upp og unninn í leir. Leirinn formar Katrín í einingar sem minna á múrsteina og raðar þeim í hleðslu sem myndar tilvísun í byggð form, handverk og arkitektúr. Hér er bæði efnið og umhverfið lífrænt, aðeins jörðin sjálf hefur skipt um form. Jarðvegurinn hvílir á sínum stað og eiginleikar hans eru óbreyttir en hamurinn er annar. Hið mótaða form stendur þar fyrir veðri og vindum og þar til það máist eða leysist upp og hverfur aftur í jörðina.

Jarðverkið við Hoffellsá á bæði uppruna sinn og endalok á staðnum. Leirinn, sem efniviður í sínum óendanleika, er minnisvarði um forgengilegt handverk mannsins (memento mori) þegar hann tekur á sig byggt form um stund. Katrín umbreytir gangi tímans í verkinu þar sem hið byggða lífræna form er fljótt að leysast upp í náttúrunni. Jarðstrúktúrinn tekur að líkjast fornleifum á nokkrum dögum en ekki árhundruðum. Þannig vakna hughrif sem spanna tíma, rúm, landslag, list og sköpun. Áhorfandinn skynjar samspil hugmyndarinnar og sjónrænnar framsetningar.

Hinar staðbundnu innsetningar mátti heimsækja og skoða meðan þær vörðu. Verkið við Hoffellsá hvílir í sínum upphafsreit, þó tíminn og náttúran hafði unnið á því og máð út þekkjanlegt form þess. Sýningin í Svavarssafni er ein þriggja sýninga sem hver um sig eru heimild um verkið, í nánd við uppruna þess og umhverfi í þremur landsfjórðungum.

Undanfari þessa verks eru staðbundin jarðverk og ljósmyndir sem sýndar voru á FRONT þríæringnum í Cleveland í Bandaríkjunum, yfirlitssýningu Katrínar í Broad safninu í Michigan og á Tvíæringnum í Rabat í Marokkó. Þessi verk fengu titilinn Namesake sem nær yfir allt ferlið; frá námuvinnslu á leir á Íslandi sem steyptur var í kantsteina til innsetningar þeirra í jarðveg á nýjum stað í nýju landi þar sem leirinn hvílir til framtíðar. Með Namesake skírskotar flutningur jarðvegs yfir landamæri í það líf sem sprettur af einni jörð og endar í annarri. Þessi verk hafa þannig sagnfræðilega vídd sem vísar til þjóðflutninga Íslendinga til Norður-Ameríku á tímum Vesturfaranna og til Norður-Afríku á tímum Tyrkjaránsins. Orðið namesake vísar í það þegar staður er nefndur eftir öðrum stað, til dæmis Reykjavík í Manitoba þar sem íslenskir landnemar vísa til síns fæðingarstaðar og heimalands.

Í verkinu Til Staðar sem Katrín hefur unnið að öllu leyti á Íslandi er linsan dregin enn nær, en bæði þessi verk hverfast um minni og staðsetningu, minnið í efninu sjálfu, sem bókstaflega er til staðar, þó manngert form þess hverfi.

Jarðlist sem stefna varð til síðla á sjöunda áratuginum. Jarðlistin fór út úr borginni og gerði umhverfið að efnivið. Stefnan felur í sér áhuga á vistfræði og vitund um mengunaráhrif og neyslu. Jarðverk leiða hugann að varðveislugildi listarinnar sem og hinu mannstýrða hagkerfi. Slík verk eru ekki alltaf aðgengileg, hvorki keypt né seld, þau eru gjarnan hverful og þeim verður ekki auðveldlega viðhaldið þar sem það er náttúran sjálf sem hýsir þau. Aftur á móti hafa áhrif jarðlistar oft á tíðum haft varðveislugildi fyrir umhverfið. Verk sem skapast hefur á vísum stað veitir svæðinu ákveðna friðhelgi í nafni listarinnar. Jarðlist er því gjarnan ákveðin innsetning í umhverfið sem viðhaldið með heimildum svo sem ljósmyndum, texta, uppdráttum, videoverki og þess háttar miðlun.

Jarðverk Katrínar á Íslandi leiða hugann að stöðu mannkyns í dag. Aldrei höfum verið jafn tæknivædd og þróuð en um leið staðið jafn bjargarlaus og ráðþrota gagnvart umhverfinu og orðið að takmarka okkur við ákveðin svæði. Til Staðar er verk sem endurspeglar sinn rauntíma en hefur skíra tilvísun í bæði upphafið og endinn. Í Predikaranum (3:20) segir :

„Allt fer sömu leiðina: Allt er af moldu komið og allt hverfur aftur til moldar.“

Til Staðar er jarðtenging. Það tjáir heimahagana, fjölskylduna og nándina sem í raun eru haldreipi mannkyns á hamfaratímum. Hin einföldu höfuðstef um gildi mennskunnar og hvað það er sem skiptir máli.

Um Katrínu Sigurðardóttur:

Katrín Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík árið 1967 og nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands (1988), San Francisco Art Institute (1990) og Rutgers University (1995). Hún hefur á 30 ára ferli sýnt skúlptúra, teikningar, ljósmyndaverk og stórar innsetningar sem umbreyta reynslu og upplifun áhorfandans. Undanfarin ár hefur hún unnið með efnislega frumferla jarðarinnar í verkum sínum. Þetta eru ferlar sem eru rannsakaðir á sviði fornleifafræði og eru jafnvel frekar viðfangsefni jarðfræði en listar. Þeir bera vitni um staðbundna fortíð, minni jarðar og hráefnis á sínum upphafsstað. Katrín notast við aðferðafræði námuvinnslu þar sem hún beinlínis nemur efni úr jörð og parar við staðlaða framleiðsluferla og flutningsaðferðir. Að lokum skilar hún efninu aftur í jörðina þar sem það samsamar sig jörðinni aftur. Í eitt augnablik í ferli jarðar tekur efnið á sig form byggingareininga. Þetta form og hlutverk þess er varðveitt í ljósmyndum áður en hin óhefta náttúrulega þróun heldur áfram og jörð snýr aftur til jarðar.

Katrín hefur átt mikilli velgengni að fagna innan listheimsins og verk hennar verið sýnd hér heima og víða erlendis en hún hefur m.a. verið fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum, Sao Paulo Tvíæringnum í Brasilíu, Momentum í Noregi og Rabat tvíæringnum í Marokkó. Einkasýning hennar í Metropolitan safninu í New York borg árið 2010 vakti mikla athygli og verk hennar High Plane hefur verið til sýnis í Listasafni Íslands síðastliðið ár. Hér gefst gestum Svavarssafns einstakt tækifæri á að upplifa verk Katrínar í návígi og kynnast einum af okkar fremstu samtímalistamönnum í gegnum nærumhverfið.

Auður Mikaelsdóttir Listfræðingur