TÍMI JÖKLANNA

Sýning í Svavavarssafni 16. des - 16. feb

 “Því meira sem maður kynnist jöklunum og fegurð þeirra 

getur maður með engu móti ímyndað sér Ísland án jökla.“

 

Við upplifum tímann hver á okkar hátt en við erum sammála um að hann getur verið fljótur eða lengi að líða. Þegar við bíðum virðist tíminn standa í stað en þegar við erum að flýta okkur virðast mínúturnar renna okkur úr greipum. Jöklarnir minna okkur á tímann. Ævarforn ís geymir upplýsingar um tíma sem var,  en hröð bráðnun þeirra gefur til kynna tíma sem er á þrotum.

 

Jöklunum er oft stillt upp sem táknmynd loftslagsbreytinga, enda eru áhrif hlýnandi loftslags á ásýnd jöklanna skýr og sláandi. Stórbrotnar jöklamyndir hafa aldrei verið vinsælli á samfélagsmiðlum, í ljósmyndabókum og auglýsingum - en sannleikurinn er sá að þrátt fyrir fegurð þeirra og mikilfengleika  angra þær okkur, enda ljóst að ef ekkert verður að gert eru dagar þeirra taldir.

 

Stefanía útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands úr grafískri hönnun og hefur lengi heillast af jöklum og umgengist þá í frítíma sínum og störfum sínum sem landvörður og jöklaleiðsögumaður. Hún ferðast ávallt með teiknibók og myndavél og skissar niður línur eða liti úr umhverfinu. Myndirnar veita oft á tíðum innblástur, jafnvel þær sem kunna að vera hreyfðar eða teknar við léleg birtuskilyrði.

 

Í jöklamyndum sínum skoðar hún náið hreyfingar jöklanna, sem og fjölbreyttar birtingarmyndir þeirra. Óteljandi bláir litir og form breytast í sífellu, skriðjöklar mjakast áfram undan eigin þunga og jökulhlaup brjótast fram á ógnarhraða. Með abstrakt-málverkum leitast hún við að túlka þessa ótæmandi uppsprettu forma og lita sem búa í jöklunum - og gerir um leið tilraun við að frysta tíma jöklanna á striga.