Bókasafn

Bókasafn Austur- Skaftafellssýslu starfar í samræmi við lög um almenningsbókasöfn (nr. 36/1997) og gildandi stofnskrá Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar. Hlutverk þess er að jafna aðgang íbúa og gesta sveitarfélagsins að upplýsingum, þekkingu og afþreyingu. Þjónusta safnsins nær til allra án tillits til aldurs, kyns, kynþáttar, stjórnmálaskoðana, trúar, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu.

  • Bókasafn

Bókasafnið er skólabókasafn Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu og vinnur með skólabókasöfnumGrunnskóla Hornafjarðar.

Árið 2017 verða liðin 180 ár frá stofnun elsta bókasafns í Austur-Skaftafellssýslu. Það hét Austur-Skaftafellssýslu lestrarfélag og var stofnað af séra Þórarni Erlendssyni í Bjarnanesi og fleiri prestum árið 1837. Þetta gamla lestrarfélag, sem jafnframt er fyrsta félag sem sögur fara af í Austur-Skaftafellssýslu hafði að markmiði að útvega bækur fyrir félagsmenn sína, aðallega presta, og virðist aðeins hafa starfað til ársins 1844. Til eru gerðarbók og samþykktir félagsins og virðist að það hafi verið með fyrstu lestrarfélögum á landinu.

Fljótlega eftir skiptingu Nesjahrepps í tvö sveitarfélög árið 1946 var bókakosti lestrarfélagsins skipt milli Nesjahrepps og Hafnarhrepps. Um 1959 var tekið upp nafnið Héraðsbókasafn Austur-Skaftafellssýslu og yfirtók það bókakost Sýslubókasafnsins og þann hluta bókakosts Lestrarfélags Nesjamanna sem hafði fallið Hafnarhreppi í skaut við hreppaskiptin. Hefur safnið frá þeim tíma gegnt hlutverki miðsafns fyrir Austur-Skaftafellssýslu og bæjarbókasafns fyrir Höfn.Snemma eða fljótlega eftir að Höfn fór að byggjast, hafði einn af frumbyggjum Hafnar, Guðmundur Sigurðsson söðlasmiður, forgöngu um stofnun Lestrarfélags Nesjamanna og var safnið til húsa á heimili hans, Hóli (Guðmundarhúsi) á Höfn allt til ársins 1921. Í reglum, sem safninu voru þá settar segir að tilgangur safnsins sé „að útvega og tryggja hreppsbúum aðgang að góðum og gagnlegum bókum.“ Einnig skyldi hreppsnefnd leggja safninu til peninga til bókakaupa.

Þegar félagsheimilið Sindrabær var tekið í notkun árið 1964 fluttist héraðsbókasafnið þangað inn á efri hæð og var nú talið hafa fengið „fastan samastað“. En það stóð ekki lengi því árið 1974 fluttist það enn um set og fór þá í nýbyggt ráðhús hreppsins.

Árið 1977 var Guðný Svavarsdóttir ráðin að safninu en lét að störfum 2019. Safnið var til húsa í ráðhúsinu til 1981, fór þá í Heppuskóla en fluttist svo að Hafnarbraut 36, fyrst í rýminu þar sem Sparisjóðurinn hafði lengst af aðsetur og svo seinna  þar sem Lögreglustöðin er í dag. Árið 2002 flutti safnið enn einu sinni og þá í nýbyggða Nýheima þar sem það er enn í dag. Nýheimar hýsa m.a. Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu, Háskólasetur, Náttúrustofu Suðausturlands, Háskólafélag  Suðurlands og fleiri stofnanir.